Ýmsir Samfylkingarþingmenn, þeirra á meðal Margrét Frímannsdóttir, hafa lagt á það ríka áherslu að bókhald stjórnmálaflokka sé opið. Sumir hafa jafnvel lagt fram lagafrumvörp þess efnis hvað eftir annað. Einnig mátti skilja það á stefnu fylkingarinnar fyrir kosningar að bókhald hennar yrði galopið. Í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld gat Margrét Frímannsdóttir aðspurð hins vegar ekki svarað því hve háan styrk fylkingin hefði fengið frá fyrirtæki hér í bæ fyrir kosningar. Er ekki rétt að Margrét Frímannsdóttir fái opinn aðgang að bókhaldi fylkingarinnar til að hún geti kannað um hve háan styrk var að ræða?
En þessi styrkur sem enginn getur svarað hvað var hár, enda bókhald Samfylkingarinnar opið upp á gátt, leiðir hugann að öðru máli. Eins og margtuggið hefur verið í fjölmiðlum undanfarið er Samfylkingin ekki stjórnmálaflokkur. Það er skoðun Margrétar Frímannsdóttur, Össurar Skarphéðinssonar og fleiri að þrautagöngu fylkingarinnar muni ekki ljúka fyrr en stofnaður verður stjórnmálaflokkur um hana. Samkvæmt lögum um tekju- og eignaskatt geta stjórnmálaflokkar fengið fé frá fyrirtækjum og fyrirtækin nýtt framlagið til frádráttar frá rekstrartekjum. Ef að það er rétt sem Margrét og Össur halda fram að Samfylkingin sé ekki enn orðin að stjórnmálaflokki er ljóst að þau fyrirtæki sem styrktu fylkinguna í síðustu kosningum geta ekki dregið framlögin frá rekstrargjöldum.
Það er fleira sem forvitnilegt væri að fá svör við varðandi hin opnu fjármál vinstri manna. Margvíslegar ásakanir hafa komið fram á undanförnum árum frá félagsmönnum í Alþýðubandalaginu um fjármálamisferli fyrrum formanns og framkvæmdastjóra flokksins, eins og áður hefur verið greint frá hér á þessum síðum. Rúmlega ár er frá því tveir kunnir Alþýðubandalagsmenn rituðu ítrekað í blöðin til að spyrjast fyrir um hvernig á því stæði að Alþýðubandalagið skuldaði 20 milljónum króna hærri fjárhæð en flokksmönnum hafði verið sagt á landsfundi 1995, þegar Ólafur Ragnar Grímsson lét af formennsku. Talsmaður fylkingarinnar og hinna opnu bókhalda, Margrét Frímannsdóttir, hefur enn ekki svarað þessum spurningum og það furðulega er að fréttamenn hafa látið hana komast upp með það.