B
Samkvæmt nýjum reglum Bush munu aðrir en ríkisstarfsmenn geta selt miða inn í þjóðgarða Bandaríkjanna. |
andaríkjastjórn hefur sent frá sér nýjar útboðsreglur fyrir ríkið. Þessar reglur eiga að einfalda mikið útboðsferli ríkisins og stytta tímann sem útboð tekur. Þar að auki eiga þær að gefa einkaaðilum færi á að bjóða í fleira en hingað til hefur verið unnt. Hugmyndin er að þeir geti boðið á móti ríkisstofnunum og náð til sín auknum verkefnum ef þeir geta boðið betur. Tilgangurinn með þessum nýju reglum er vitaskuld að spara fé, en þær munu einnig hafa í för með sér aukin umsvif einkaaðila, sem er út af fyrir sig æskileg þróun.
Ekki eru þó allir sammála því að þetta sé æskileg þróun, því þeir eru til sem hafa hag af því að ríkisstarfsmenn séu sem flestir. Þetta eru forystumenn verkalýðsfélaga ríkisstarfsmanna, til að mynda formaður Bandalags starfsmanna ríkisins bandaríska, sem á íslensku gæti útlagst BSRB. Þetta erlenda BSRB telur að aukin útboð séu einungis til þess fallin að veita verktökum arðbær störf, án tillits til hagsmuna skattgreiðenda. Formaður BSRB er þó ekki einn um þessa skoðun, stjórnarandstaðan hvikar ekki heldur frá röngum málstað. Hinn geðþekki öldungadeildarþingmaður Edward Kennedy, sem notið hefur stuðnings verkalýðshreyfingarinnar, hefur lýst sig andvígan hugmyndinni og getur ekki til þess hugsað að kostnaður verði látinn ráða því hver vinnur þau verkefni sem ríkið vill láta vinna.
Ekki er þó líklegt að George W. Bush Bandaríkjaforseti láti undan þrýstingi þessara talsmanna sérhagsmunanna. Að sögn stjórnar hans vinnur nær helmingur 1,8 milljóna ríkisstarfsmanna störf sem eru sambærileg störfum í einkageiranum. Bush hefur sett það markmið að í það minnsta 15% þessara starfa, 270.000 störf, verði komin í útboð fyrir lok október og að þegar fram í sækir verði hlutfallið mun hærra.