Ýmsir telja að umfangsmikið ríkisvald sem rakar saman skatttekjum af kappi og er með nefið í hvers manns koppi geti best tryggt jöfnuð. Íslenska þjóðveldið sem stóð í um þrjár aldir hefur hins vegar stundum verið talið eitt athyglisverðasta dæmið um samfélag þar sem ríkisvald var í algjöru lágmarki en um hefðbundið framkvæmdavald var ekki að ræða. Meðal þeirra sem ritað hafa um þessa merkilegu tilraun með lágmarksríki eru David Friedman og Birgir Þór Runólfsson. Þrátt fyrir að Íslendingasögurnar geymi margar frásagnir af þrætum og átökum hefur þjóðveldið verið tiltölulega friðsamt samfélag á þess tíma mælikvarða og jafnvel þótt það sé borið saman við aðra tíma. Ef til vill gefa Íslendingasögurnar álíka skakka mynd af samfélaginu og sjónvarpsfréttir nútímans þar sem fyrirferðamestu fréttirnar eru af misyndisverkum og blóðugum átökum.
Í Morgunblaðinu á fimmtudag er viðtal við Jesse Byock, prófessor við UCLA, en hann hefur rannsakað íslenska þjóðveldið undanfarin aldarfjórðung. Í viðtalinu segir hann að það hafi verið kostur íslensk samfélags á þessum tíma, hversu mikið jafnræði hafi verið með mönnum, þ.e. munurinn á ríkum manni og fátækum var miklu minni hér heldur en almennt gerðist í Evrópu. Byock segir að hér hafi myndast flókið kerfi gagnkvæmra skuldbindinga sem byggðist á ættarböndum, bræðralagi og þó fyrst og fremst vinfengi, en í henni fólst einskonar umsamun pólítísk velvild manna á milli.
Og Byock bætir við að íslenskt samfélag  	þreifst vel í tæpar þrjár aldir án  	miðstýrðs framkvæmdavalds. Málamiðlunartækni  	fornmanna kom í veg fyrir að samfélagsgerðin liðaðist  	í sundur. Íslendingar hafi snemma lært að lynda  	hver við annan. Og þrátt fyrir blóðugt ofbeldi  	sem sögurnar greini frá, þá sé augljóst  	að að ofbeldi hafi í rauninni verið haldið í  	skefjum lengst af á þjóðveldistímanum.  	
Byock mun halda fyrirlestur um rannsóknir sínar í  	Þjóðarbókhlöðunni kl. 17.00 á miðvikudaginn  	kemur.