Hvað varð eiginlega um þarna „fjölskyldunar fjórtán“? Eða voru þær fimmtán? Þær hafa svo gjörsamlega horfið úr umræðunni að Vefþjóðviljinn man ekki hvort var. Þær óðu hér um allt fyrir rúmum áratug. Deildu og drottnuðu. Áttu allt sem máli skipti. Réðu öllu sem þær vildu. Þær voru víst allar í Sjálfstæðisflokknum. Heilinn í valdakerfinu. Heilu bækurnar voru gefnar út um þessar ógurlegu fjölskyldur og blöð og tímarit voru hvorki fugl né fiskur án þess að tæpt væri „fjölskyldunum fjórtan“.
Hvernig má það vera að eftir 12 ára samfellda stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins er eins og „fjölskyldunar fjórtán“ hafi aldrei verið til? Hafa sjálfstæðismenn ekki staðið „dyggan vörð um sérhagsmunina“ á þessum árum? „Mulið undir hina efnameiri“? Hafa „hinir ríku ekki orðið ríkari og þeir fátækari fátækari“? Svo mætti auðvitað ætla þegar greinar eftir fyrrverandi formann Frjálslynda flokksins, forystumenn VG og þingmenn Samfylkingarinnar af yngri kynslóðinni eru lesnar. En með þeim er merkilegur samhljómur.
Kannski það hafi einhver áhrif að á þessum tólf árum hefur verið skipulega dregið úr afskiptum ríkisins af atvinnulífinu með einkavæðingu og auknu frelsi í viðskiptum. Kannski það hafi haft einhver áhrif að ýmis stærstu fyrirtæki landsins hafa verið einkavædd og þar sitja ekki lengur í stjórnum pólitíkusar sem hafa annað að leiðarljósi en að afla viðskipta og hámarka þar með hagnað. Hér er líka að mestu leyti komið á markaðskerfi án ríkisstyrkja í sjávarútvegi sem mun vandfundið á Vesturlöndum. Kannski skiptir það máli. Kannski skiptir það máli að skattar á atvinnurekstur hafa verið lækkaðir og þar með þröskuldar fyrir nýja athafnamenn.
Kannski íslenskt þjóðfélag sé orðið svo miklu frjálsara og opnara en áður að þjóðsögur á borð við söguna um „fjölskyldunar fjórtán“ eigi ekki lengur hljómgrunn.