Kannanir á ferðavenjum í Reykjavík gefa til kynna að 73% ferða séu á einkabíl, 4% með strætó, 6% á hjóli og 17% gangandi.
Þetta er nokkuð afgerandi hlutur einkabílsins. Hann er eina samgöngutækið sem stendur undir nafnbótinni almenningssamgöngur.
En gefa kannanir þar sem eingöngu er spurt um fjölda ferða glögga mynd af stöðunni? Skiptir ekki líka máli hve langar ferðirnar eru?
Það er eiginlega augljóst að menn velja bílinn fremur til lengri ferða en ganga styttri leiðir.
Ef menn gefa sér að bíl- og strætóferðir séu að jafnaði 10 sinnum lengri en göngutúrar og 5 sinnum lengri en ferðir á hjóli breytist ferðahlutfallið í 91% á einkabílnum, 5% í strætó, 2% hjólandi og 2% gangandi.
En er þetta ekki að breytast? Er ekki líklegt að í framtíðinni noti færri einkabíl?
Á síðasta ári var Íslandsmetið í sölu nýrra bíla og akstri þeirra (umferð) slegið. Það er því ekkert sérstakt sem bendir til að Íslendingar snúi baki við einkabílnum á næstunni. Á undanförnum áratugum hefur svo tekist að draga mjög úr neikvæðum áhrifum bíla á umhverfið. Mengandi útblastur bíla hefur snarminnkað – blý og brennisteinn eru til dæmis horfin úr eldsneyti – og nýir orkugjafar eru jafnvel án útblásturs. Bílar verða æ öruggari fyrir bæði farþega og aðra í umferðinni. Það ætti því heldur að draga úr (pólitískri) andstöðu við notkun þeirra ef sanngirni væri gætt.
Bílar eru vissulega dýrir, ekki síst þegar ríkið hefur lagt allt að 60% vörugjald og 24% virðisaukaskatt á þá. En fyrirbæri eins og Uber hafa auðveldað bíleigendum að deila kostnaði við rekstur bílsins með bíllausum samborgurum sínum. Íslenskar bílaleigur hafa sömuleiðis sætt lagi og leigt innfæddum bíla til nokkurra mánaða utan helstu ferðamannatíðar.
Ný samskiptatækni hefur svo án efa losað menn við margfalt fleiri bílferðir en tilburðir hins opinbera til að hafa áhrif á það hvernig fólk ferðast. Ótal erindi má nú afgreiða án þess að mæta á staðinn, allt frá videoleigu til viðskiptabanka. Ekki sér fyrir endann á því hve mjög netverslun sparar mönnum sporin.
Þótt þarna sé margt í deiglunni er engu að síður mikið framboð af sérfræðingum sem telja sig vita nákvæmlega hvernig Íslendingar og ekki síst Reykvíkingar muni fara um árið 2040. Þeir eru tilbúnir til að leggja tugi milljarða undir, af annarra manna fé, að spádómar þeirra um að bíllinn hverfi og allir hoppi um borð í eina borgarlest rætist. Þeir hafa stýrt Reykjavíkurborg undanfarin ár.
Þessir ágætu menn eru því jafnframt andvígir að greiða fyrir bílaumferð með því að lagfæra og bæta umferðarmannvirki sem borgarbúar eru raunverulega að nýta núna. Einu gildir þótt gatnamót anni ekki umferðinni og séu augljósar slysagildrur, eins og á mótum Kringlumýrar- og Miklubrautar. Þau má ekki bæta eða lagfæra því það gæti dregið úr líkum á því að fólk „temji sér réttan ferðamáta“ og „tileinki sér bíllausan lífsstíl.“