Samfylking, Viðreisn og Píratar tilkynntu eftir þingkosningar að flokkarnir hefðu myndað bandalag á alþingi. Það er rökrétt að helstu upphlaupsflokkar þingsins starfi saman, ekki síst þegar þeir eiga svo mörg sameiginleg stefnumál.
Eitt stefnumál þeirra er aðild Íslands að Evrópusambandinu. Aðild hefur verið hryggjarstykkið í stefnu Viðreisnar og Samfylkingar. Krafa um þjóðaratkvæði um aðildarviðræður er líka hefðbundin flóttaleið fyrir þingflokk eins og Pírata sem á erfitt með að komast að efnislegri niðurstöðu um mál án þess að kalla þurfi á vinnustaðasálfræðing til að bera klæði á vopnin.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar var spurður um þetta mikilvæga stefnumál í Ríkisútvarpinu 2. nóvember.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir að Samfylkingin muni ekki setja það sem skilyrði í stjórnarmyndunarviðræðunum að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna við Evrópusambandið á næsta kjörtímabili.
Hinn 6. nóvember kastaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þessu helsta stefnumáli Viðreisnar einnig fyrir róða.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, metur stöðuna við stjórnarmyndun þannig í dag að flokkarnir verði að koma sér saman um stjórn með breiðri skírskotun. Flokkurinn myndi ekki setja atkvæðagreiðslu um aðild að ESB sem skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn.
Viðreisn var þó beinlínis stofnuð ári fyrr um það mál að koma Íslandi í Evrópusambandið. Og nokkrum dögum fyrir þetta viðtal við formanninn hafði flokkurinn þá stefnu í þingkosningum að sækja um aðild.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir ígildi formanns Pírata sagði einnig af þessu tilefni 8. nóvember að Píratar hefðu verið „samvinnuþýðir“ í viðræðum um mögulega stjórnarmyndun en hélt því leyndu í anda upplýsingafrelsis og gagnsæis hvort Píratar hefðu farið að dæmi Viðreisnar og Samfylkingar og stungið Evrópusambandsmálunum undir stól.
Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að flokkar verða jafnan að slá af kröfum sínum í stjórnarsamstarfi. En það er nokkur nýlunda að flokkum takist að svíkja megin stefnu sína svo afgerandi án þess fara í stjórn. Kannski eru svona hraðsvik hluti af „nýju vinnubrögðunum“ sem flokkarnir boða stíft.