Þingmaður sat hjá í yfir þúsund atkvæðagreiðslum á alþingi. Hann skilaði auðu í 3 atkvæðagreiðslum af hverjum 4 sem hann var viðstaddur. Í 75% tilvika eða alls 1285 skipti treysti Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata sér ekki til að taka afstöðu til þeirra mála sem borin voru upp á alþingi 2013 – 2015.
Þegar frumvörp er varða nýjan búvörusamning komu til atkvæða haustið 2016 sátu flokksfélagar þingmannsins svo allir hjá. Skýringin sem þeir gáfu á hjásetunni var að þeir hefðu enga hugmynd um hvaða kerfi í landbúnaðarmálum gæti komið í staðinn.
Einn hjásetumannanna, Helgi Hrafn Gunnarsson, afsakaði sig með þessum orðum:
Ef við værum með mótaðar hugmyndir um kerfi til að taka við þessu, þá hefðum við sjálfsagt greitt atkvæði gegn þessu.
Þessi fyrirsláttur Helga stenst þó ekki því eins og almennir Píratar bentu á hafði flokkurinn haldið fjölda funda um landbúnaðarmál og samþykkt landbúnaðarstefnu á netinu. Þar fór nú nýja fína netlýðræðið fyrir lítið.
En þótt Píratar séu nefndir hér til marks um óvönduð vinnubrögð á þingi þá er það auðvitað almenn hætta þegar þingflokkar eru fámennir og rótlausir að ýmislegt fari fyrir ofan garð og neðan. Litlir flokkar geta ekki með góðu móti mannað 8 fastanefndir eða aðrar nefndir þingsins. Það þýðir að þessir litlu þingflokkar verða utangátta í mörgum mikilvægum málum sem til umfjöllunar eru í nefndum þingsins. Þegar mál kemur til umræðu í litlu þingflokkunum hefur enginn sett sig inn í það og enginn hefur forsendur til að kynna það fyrir samflokksmönnum sínum. Þessi óreiða getur eins og dæmin sýna jafnvel leitt til þess að ráðherrar smáflokka hlaupi úr ríkisstjórn um miðja nótt án þess að hafa rætt málin við aðra en fáein nettröll.
Hverjum nýjum þingflokki fylgir svo tugmilljóna kostnaður vegna álags á laun þingflokksformanns og formanns, aðstoðarmanns formanns, sértaks þingflokksherbergis, framkvæmdastjóra þingflokks, skrifstofuaðstöðu og annars óhjákvæmilegs utanumhalds.