Einn fróðasti Íslendingurinn um launamál þjóðarinnar er Helgi Tómasson fyrrum starfsmaður Kjararannsóknarnefndar og núverandi prófessor í tölfræði og hagrannsóknum. Í fróðlegu erindi um Launamun og tölfræðilegar gildrur sem finna má á heimasíðu prófessorsins segir Helgi:
Almennar reglulegar launkannanir með tilheyrandi meðaltölum og staðalfrávikum eru nauðsynlegar til að gera sér grein fyrir ástandi og þróun á vinnumarkaði. Þau meðaltöl munu hins vegar ekki gefa nothæfar vísbendingar um eðli og umfang mismununar. Ég starfaði hjá Kjararannsóknarnefnd í 5 ár og framkvæmdi aðhvarfsgreiningu (normal-línulegt líkan í logaritmum af greiddu tímakaupi) með einföldum aldurs/starfa/stöðu leiðréttingu. Þetta gerði ég fyrir hvern ársfjórðung 1980-1989. Dæmigerð gildi á kynstuðlinum voru fyrir verkafólk 5%-10% körlum í hag upp í 20-25% konum í hag, fyrir afgreiðslufólk 5%-15% körlum í hag og fyrir skrifstofufólk 15%-25% körlum í hag.
Ein af forsendum aðferðarinnar að staðalfrávik sé jafnt milli hópa virtist falla í hópi skrifstofufólks á þann veg að staðalfrávik afgangsliða hjá körlum var miklu stærra en hjá konum (gæti verið vísbendingu að breytur vantaði). Sömuleiðis vissi ég af göllum í gögnum eins og lýst er í dæmi D hér að ofan.
Það ásamt þekkingu minni á öðrum tölfræðilegum atriðum gerði að mér finnst fráleitt að álykta út frá þessu að um almenna mismunun milli kynja sé að ræða. Á 5 ára ferli í Kjararannsóknarnefnd sá ég aldrei nokkra vísbendingu um mismunun eftir kyni eða öðru.
Á 5 ára ferli við kjararannsóknir sá tölfræðingurinn aldrei nokkra vísbendingu um mismunun eftir kyni. Og þetta var á níunda áratug síðustu aldar. Það hvarflar væntanlega ekki að nokkrum manni að mismunun í launum eftir kynferði hafi af einhverjum dularfullum ástæðum tekið sig upp á þeim aldarfjórðungi sem liðin er síðan Helgi lauk störfum sínum hjá Kjararannsóknarefnd. Engar vísbendingar voru þá um mismunun eftir kynferði og sú niðurstaða Helga kemur heim og saman við niðurstöður í nýlegri skýrslu, „Launamunur karlar og kvenna“ sem Velferðarráðuneytið lét vinna og kom út árið 2015. Þar segir í inngangi á síðu 9:
Óskýrður launamunur felur í sér þann hluta launamunar sem skýribreytur og matsaðferð skýra ekki. Aðrar skýribreytur og aðrar aðferðir gætu þannig skilað allfrábrugðinni niðurstöðu. Varlega þarf því að fara í að túlka óskýrðan launamun sem hreina launamismunun.
Í skýrslunni segir jafnframt á síðu 53:
Ómálefnalegan, óskýrðan launamun má skilgreina sem launamun sem eingöngu er vegna kynferðis. Um er að ræða þann mun sem eftir stendur þegar tillit hefur verið tekið til allra þeirra þátta sem áhrif hafa á launamyndun. Í reynd er í besta falli hægt að nálgast þennan mun. Launamyndun byggist oft á þáttum sem tölfræðin veitir ekki svar við. Við getum því ekki með vissu ályktað að sá óskýrði launamunur sem hér hefur verið metinn sé eingöngu vegna kynferðis.
Einar Steingrímsson prófessor í stærðfræði skrifar um þessi mál á Facebook í gær vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram undanfarna daga um þessi mál í kjölfar greinar dómsmálaráðherra í riti Orators. Einar segir:
Það eru nánast engin gögn til á Íslandi sem benda til launamunar sem stafi bara af kynferði. Þau litlu gögn sem til eru sem ekki eru gersamlega marklaus (eins og kannanir stéttarfélaga eru allar) benda til svo lítils munar að það er mjög varasamt að draga ályktanir af, auk þess sem það er aldrei hægt að vera viss um að allar breytur sem skipta máli hafi verið teknar með.
En jafnvel þótt gögnin væru fullkomin, þá er ekki hægt að finna út kynbundinn launamun með því að steypa saman gögnum úr mörgum stofnunum eða fyrirtækjum.
Og svo skrifar Einar áfram:
Ég veit ekki hvort ég á að segja að ég sé á móti jafnlaunavottun. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að það sé hægt að votta það á hlutlægan hátt hvort fólk fær sömu laun fyrir sömu vinnu, og þess vegna hef ég enga trú á að þetta verði annað en enn eitt skrifræðisbáknið sem engu komi til leiðar nema skriffinnsku. Sama held ég að gildi um „jafnréttisáætlanir“ sem stærri fyrirtæki eru skikkuð til að hafa. Ég held að þær séu nánast aldrei neitt annað en pappír.
Þetta er útbreidd „sýki“, að halda að hægt sé að mæla svona hluti nógu nákvæmlega til að mælingarnar séu nothæfar til einhvers.
Því miður virðast margir femínistar taka þessum rannsóknarniðurstöðum og rökum sérfróðra manna með algerri afneitun. En það eru skiljanleg viðbrögð þeirra sem farið hafa æði frjálslega með hugtakið „launamunur kynjanna“ árum og jafnvel áratugum saman. Auðvitað er ekki gaman að vera staðinn að því að hafa í ræðu og riti afflutt mikilvægt mál um árabil.