Því hefur verið haldið fram að í gangi séu viðræður um stjórnarmyndun og sé þar meðal annars rætt um að efnt verði til atkvæðagreiðslu um að send verði inngöngubeiðni í Evrópusambandið. Það er vonandi misskilningur.
Í inngöngubeiðni í Evrópusambandið felst tilkynning lands um að það hafi ákveðið að það vilji ganga í Evrópusambandið. Það næsta sem gerist, ef ESB vill fá landið, er að gerð er athugun á því hvaða reglum inngönguríkið þarf að breyta hjá sér, svo þær séu í samræmi við reglur ESB, og hvaða reglum þarf ekki að breyta af því að þær eru þá þegar í samræmi við reglur ESB.
Það fara ekki fram samningaviðræður um varanlegar undanþágur inngönguríkisins.
Meðal annars þess vegna kemur ekki til greina að land sæki um aðild að Evrópusambandinu nema fyrir því sé meirihlutavilji á þingi landsins.
Á Íslandi er enginn slíkur vilji fyrir hendi. Meirihluti þingmanna vill ekki ganga í Evrópusambandið. Því kemur ekki til greina að senda inngöngubeiðni til Brussel og engin þjóðaratkvæðagreiðsla mun fara fram um það.
Það lýsir ótrúlegri þráhyggju, ef mál eins og þetta er rætt af einhverri alvöru í stjórnarmyndunarviðræðum.