Myndu menn ekki bara fylla þær ef þær væru tæmdar oftar?

Ok það er græn tunna. Blá. Og spar. En hvernig væri að borgin byði upp á tunnu sem er tæmd?

Flest fyrirtæki landsins auka þjónustu sína í kringum jólin. Verslanir og þjónustufyrirtæki hafa opið fram á kvöld, bæta við sig starfsmönnum, skólakrakkar þiggja störf í jólaleyfinu með þökkum, vinir og vandamenn hlaupa undir bagga.

Enda er eftirspurn eftir þessari þjónustu. Viðskiptavinurinn ræður.

Þó eru undantekningar frá þessu.

Ein þeirra er sorphirða Reykjavíkur og sennilega fleiri sveitarfélaga. Líklega safnast aldrei meira sorp upp á heimilum fólks en um jól og áramót. Sennilega er það tvö- eða þrefalt meira en venjulega. Af því leiðir að aldrei er meiri ástæða til að fjölga svonefndum „sorphirðudögum“ sem borgin skammtar mönnum en einmitt á þessum tíma. En reynsla undanfarinna ára sýnir að borgin fækkar þeim heldur. Computer says no.

Ætli nokkurt einkafyrirtæki í kæmist upp með svona framkomu við viðskiptavini sína? Að skella á nefið á þeim þegar þjónustunnar er helst þörf?