Þegar Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að ríkisstjórn og hefur þar forgöngu um að létta álögum hins opinbera af borgurunum eru vinstrimenn á móti því. Þeir færa fram mismunandi ástæður en eru á móti skattalækkununum.
Vinstrimenn segja að þær skattalækkanir sem lagðar eru til séu of miklar. Eða að ekki sé verið að lækka lægri skatta. Skattalækkanirnar nýtast of fáum. Eða nýtast röngum „hópum“.
Svo eru þær líka alltaf á röngum tíma. Ef efnahagslífið gengur vel þá myndu skattalækkanir auka þensluna. Ef efnahagslífið gengur ekki eins vel, þá má ríkið ekki missa „tekjur“.
Vinstrimenn segja að nota eigi skatta til að „sveiflujafna“. Í raun eiga þeir við að ekki eigi að lækka skatta „núna“, heldur hugsanlega við aðrar aðstæður, seinna.
Hver sem ástæðan er, verður niðurstaða vinstrimannsins sú að hann er á móti þeirri skattalækkun sem lögð er til.
Fyrir vinstrimanninum er skattheimtan ekki ill nauðsyn. Þeim finnst ekkert slæmt við að taka peninga launamannsins af honum og leggja þá í ríkissjóð. Þeir hugsa ekki með sér að ríkið verði að sinna einhverjum ákveðnum verkefnum og því sé því miður nauðsynlegt að taka peninga af borgurunum, en því eigi að halda í lágmarki. Vinstrimenn vilja ná sem mestu af einstaklingnum og færa undir „samneysluna“.
Ef minnst er á skattalækkun þá sjá vinstrimenn ekki fyrir sér að vinnandi fólk fái að halda aðeins meiru eftir af laununum sínum. Eða að aðeins minna sé lagt ofan á það verð sem fólk þarf að borga fyrir vörur í búðum.
Þegar talað er um skattalækkum þá sér vinstrimaðurinn bara fyrir sér „tekjulækkun“ ríkissjóðs.
Fyrir venjulegum vinstrimanni er hinn almenni borgari tekjustofn ríkisins.