„Einkavæðingin hin síðari“ átti sér aldrei stað

Þrír nýir bankar voru stofnaðir af íslenska ríkinu í húsnæði og með ýmsum starfsmönnum gömlu bankanna sem urðu afvelta haustið 2008.

Nánast allar eignir þessara nýju banka voru teknar úr búum gömlu bankanna, allt frá skrifborðsstólum til útlánasafna. Helstu verðmætin í nýju bönkunum voru því í eigu gömlu bankanna og þar með kröfuhafa í bú þeirra.

Hefði ríkissjóður Íslands viljað eignast nýju bankana þrjá hefði hann þurft að greiða búum gömlu bankanna og þar með kröfuhöfum þeirra hundruð milljarða fyrir þessar eignir sem fluttar voru úr gömlu bönkunum.

Til allrar hamingju var það ekki gert heldur fengu gömlu bankarnir einfaldlega hlut í nýju bönkunum (Arion banka og Íslandsbanka) í samræmi við þær eignir gömlu bankanna sem færðar höfðu verið yfir í nýju bankana.

Ríkið sölsaði hins vegar Nýja Landsbankann undir sig fyrir með því að leggja fram 122 milljarða í nýtt hlutafé.

Þarna var því engin einkavæðing á ferðinni heldur miklu fremur þjóðnýting á einum af nýju bönkunum.

Það er óskiljanlegt að það gangi árum saman í fjölmiðlum fullyrðingar um þessa meintu „einkavæðingu“ án þess að nokkur maður spyrji hinnar augljósu og einföldu spurningar: Hvaða eignir ríkisins voru eiginlega seldar í „einkavæðingu bankanna hinni síðari“?

Svarið er að engar eignir ríkisins voru seldar, hvað þá gefnar. Það var engin einkavæðing.

Þetta er allt saman sorglegur misskilningur í bland við pólitískt at.

Vonandi var Ekki-skýrslan frá ekki-fjárlaganefnd um ekki-einkavæðinguna endastöð þessarar umræðu.