Kólnar á Loftslagi 1,5

Ein af áróðursveitunum sem sett var upp á Facebook fyrir kosningar var París 1,5 þar sem birtar voru færslur og myndbönd um loftslagsmál. Enginn veit hver kostaði reksturinn en starfsmenn almannatengslafyrirtækisins Þekkingarmiðlunar ehf. voru í forsvari.

Eins og frægt er ákváðu aðstandendur síðunnar að meta frammistöðu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum af orðagjálfri flokkanna rétt fyrir kosningar. Ekkert tillit var tekið til verka þeirra.

Hæstu einkunnir fengu framan af VG og Samfylking, sem hófu olíuvinnsluferlið á Drekasvæðinu, settu milljarða af fé skattgreiðenda í málmbræðsluævintýrið á Bakka og umhverfisskaðlega íblöndun í eldsneyti landsmanna en að lokum sigu Píratar fram úr þeim eftir að þeir birtu loftslagsstefnu sem byggð var á röngum tölum um útblástur og innihélt helst þá nýjung að stofna nýja ríkisstofnun sem kallast á Loftslagssetur. Kannski er þetta stofnunin sem á að endurræsa Ísland.

Núverandi ríkistjórnarflokkar, sem undirrituðu Parísarsamkomulagið gegn loftslagsbreytingum fyrir Íslands hönd, fengu 0,4 og 0,7 í einkunn af 10 mögulegum.

En nú eru kosningar að baki og greinilegt að áhyggjur af hlýnun andrúmsloftsins hafa minnkað talsvert hjá París 1,5. Áróðursmyndbönd og pólitísk einkunnagjöf hafa vikið fyrir almennum fréttum.