Stofnun stjórnmálaflokksins Viðreisnar má rekja til þess að Benedikt Jóhannesson var ósáttur við að verða undir í Evrópumálum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013. Á fundinum var samþykkt með yfirgnæfandi stuðningi að slíta viðræðum við Evrópusambandið og hefja þær aldrei aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Megin erindi Viðreisnar í þingkosningunum var því að lama Sjálfstæðisflokkinn, helsta og sterkasta andstæðing ESB aðildar Íslands.
Og hvernig tókst til?
Jú Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig tveimur þingmönnum.
En Viðreisn kom samt sjö mönnum á þing. Eru það ekki smá skilaboð um ESB aðild? Tja, hvaðan komu þeir? Jú líklegast er að þar hafi fyrrum stuðningsmenn Samfylkingar og Bjartar framtíðar verið á ferðinni. En þessir ESB-flokkar töpuðu einmitt samtals sjö þingmönnum. Þar af tapaði dyggasti stuðningsflokkur ESB aðildar, Samfylkingin, sex þingmönnum og er vart hugað líf.
Með framboði Viðreisnar bættu ESB sinnar engu við sig á alþingi, eru nú sundraðir í þrjá smáflokka og helsti ESB flokkur þjóðarinnar var nánast þurrkaður út.
Hvers vegna gera þessir þrír smæstu flokkarnir á þingi þjóðinni ekki þann greiða að sameinast svo ekki þurfi að setja stórfé í álag á laun margra formanna, laun margra aðstoðarmanna formanna, þingflokksformanna o.s.frv?
Hvers vegna þarf þrjá flokka um eitt mál?
Forystumenn þessara flokka eru alltaf að tala um nauðsyn breiðrar samstöðu, sáttar og samtals. Hvernig væri að byrja á þessu litla verkefni og sjá hvernig gengur?