Ef að einhver efast um að skattar séu enn of háir á Íslandi má gjarnan vísa viðkomandi á Vasareikninn sem Sigríður Á. Andersen alþingismaður hefur sett upp á heimasíðu sinni.
Í Vasareikninn getur hver sem er sett inn sínar forsendur og séð raunverulegan ávinning af því að bæta við sig vinnu. Hvað hafa menn raunverulega upp úr því að taka að sér aukavinnu á laugardegi, laga bilaða nettengingu að kveldi, lagfæra forrit sem stýrir nýju tæki í nýsköpunarfyrirtæki, klippa einn haus í viðbót, skjótast austur fyrir fjall og laga frostsprungna lögn í sumarbústað?
Dæmið sem Sigríður sýnir er ekki bara til marks um að skattar eru alltof margir og háir heldur að utan í skattkerfið hafa umhugsunarlítið verið hengd bótakerfi sem refsa mönnum og letja til hvers kyns framtakssemi.
Og svo eru það auðvitað öll skatthlutföllin sem vinstri stjórnin hækkaði og hækkaði og hækkaði. Það á enn eftir að vinda ofan af ýmsu í þeim efnum þótt flest hlutföllin hafi lækkað á þessu kjörtímabili.
Oft á tíðum er niðurstaðan því nöturleg. Í sumum tilvikum enda aðeins um 3.000 krónur af hverjum 10.000 í vasa hins vinnandi manns.
Þetta er það sem kallað er jaðaráhrif skattkerfisins eða jaðarskattar.
Þarna er því verk að vinna því svo mikil jaðaráhrif hafa slæm áhrif á framtakssemi manna.
Skattamálin eru eitt af þeim málum sem skilja stjórnmálaflokkana að. Eins og dæmin sanna eru skattahækkanir eina loforðið sem vinstri flokkarnir svíkja aldrei.