Vinstrigrænir, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Björn Valur Gíslason og félagar, auglýsa nú á hverjum degi undir slagorðinu „Hverjum treystir þú?“
Það er von að spurt sé.
En kannski undarlegra að einmitt þetta fólk telji rétt að spyrja hverjum sé treystandi.
Líklega treystir það á algert gullfiskaminni nægilega stórs hluta kjósenda. Það er nefnilega enginn flokkur sem á eins hrikalega sögu þegar kemur að efndum loforða.
Við kosningarnar var mjög tekist á um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samfylkingin barðist fyrir henni af öllum kröftum. Vinstrigrænir höfðu alltaf talað gegn slíkri aðild, ályktað um það á landsfundum og haldið þeirri stefnu skýrt fram. Í kosningabaráttunni 2009 var engin breyting á því. Skýrast allra talaði Steingrímur J. Sigfússon í sjónvarpinu daginn fyrir þingkosningarnar 2009. Hann fullvissaði menn um það að ríkisstjórn með Vinstrigrænum myndi ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu.
En hvað gerði svo ríkisstjórn Vinstrigrænna og Samfylkingarinnar, strax eftir kosningar? Hún sótti strax um aðild að Evrópusambandinu.
Viðskiptablaðið fjallaði um þetta fyrir nokkrum árum. Þar sagði blaðið:
Við skulum lesa þessi orðaskipti yfir.
Sigmar Guðmundsson: „Kemur það til greina Steingrímur bara svo ég spyrji þig – bíddu Ástþór – kemur það til greina að hefja undirbúning að því að sækja um, strax núna eftir kosningar…“
Steingrímur J. Sigfússon formaður VG: „Nei!“
Sigmar Guðmundsson: „… vegna þess að þannig hefur Samfylkingarfólkið talað.“
Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“
Sigmar Guðmundsson: „Að þetta byrji í sumar?“
Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“
Sigmar Guðmundsson: „Hvenær getur þetta byrjað?“
Steingrímur J. Sigfússon: „Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks. Og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður, gagnstætt okkar stefnu, í maí, þá yrði það fellt í flokksráði vinstrigrænna. Þannig að slíkt er ekki í boði.“
Skýrara gat það ekki verið. Þetta var kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl 2009. Nokkrum dögum síðar mynduðu Samfylkingin og VG ríkisstjórn og ákváðu strax að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þingsályktunartillaga um það var lögð fram strax í maí. Stjórnarflokkanir höfnuðu tillögu um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. Í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar var aðildarumsókn send til Brussel. Síðan hófust aðlögunarviðræðurnar.
* * *
Kvöldið fyrir kosningar fullyrti Steingrímur J. Sigfússon sem sagt ítrekað að ekki yrði sótt um aðild. Það yrði ekki gert í maí. Þetta myndi ekki „byrja í sumar“. Þetta var allt svikið strax.
Skömmu áður en Árni Páll Árnason, fyrrverandi viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, lét af embætti formanns Samfylkingarinnar í sumar, skrifaði hann bréf til Samfylkingarmanna. Þar sagði hann:
Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið.
Með öðrum orðum fóru forystumenn Vinstrigrænna um allt og fullyrtu að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu. Síðast voru mikil loforð gefin um þetta í sjónvarpinu kvöldið fyrir kosningar. Þessi loforð voru í samræmi við margsamþykkta stefnu flokksins, svo fólk hafði fulla ástæðu til að trúa þessum loforðum. En almenningur fékk ekkert að vita um „flókna baktjaldasamkomulagið“ sem tryggði forystumönnum Vinstrigrænna ráðherrastólana.
Hverjir voru forystumenn Vinstrigrænna sem hegðuðu sér svona? Það voru formaðurinn Steingrímur J. Sigfússon, varaformaðurinn Katrín Jakobsdóttir, þingflokksformaðurinn Björn Valur Gíslason, umhverfisráðherrann Svandís Svavarsdóttir. Þau eru öll enn í forystu flokksins og spyrja nú á hverjum degi: „Hverjum treystir þú?“