Auðstjórn almennings – ríkisbankana til fólksins

Eyjólfur Konráð Jónsson stendur í miðið ásamt nokkrum samþingsmönnum sínum á alþingi 1982. Frá vinstri: Vilmundur Gylfason, Karvel Pálmason, Eyjólfur, Jón Kristjánsson, Guðmundur J. Guðmundsson og Helgi Seljan sitjandi.

Í samþykkt flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins 24. september var fylgt eftir ályktunum landsfundar flokksins um að drjúgum hluta í bönkunum sem nú eru í komnir í eigu ríkisins verði komið milliliðalaust í hendur almennings.

Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að drjúgur hluti eignarhluta ríkisins í stóru bönkunum verði almenningssvæddur og eignarhald almennings í þeim verði milliliðalaust.

Eins og Bjarni Benediktsson formaður flokksins lýsti þá gerist þetta einfaldlega með því að ríkið afhendir landsmönnum öllum jafnan hluta í bönkunum til eignar.

Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins nefndi það auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans, þann sjálfsagða hlut að hinn almenni maður eigi beinan hlut í atvinnufyrirtækjum landsins.

Í bókinni Alþýða og atvinnulíf sem kom út árið 1968 ritaði Eyjólfur Konráð:

Almenningshlutafélög eru ekki einungis mikilvæg af efnahagsástæðum heldur eru þau e.t.v. þýðingarmesti þátturinn í því þjóðfélagskerfi, sem nefna mætti auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans. Er þar átt við mikilvægi þess, að sem mestur hluti þjóðarauðsins dreifist meðal sem allra flestra borgara landsins, að auðlegð landsins safnist hvorki saman á hendur fárra einstaklinga né heldur ríkis eða opinberra aðila. Þeir sem þessa stefnu aðhyllast, telja þá þjóðfélagsþróun æskilegasta, að valdið sem fylgir yfirráðum yfir fjármagni, dreifist sem mest meðal landsmanna allra. Þeir benda á hættuna, sem er því samfara, er fjármálavald flyzt í stöðugt ríkara mæli yfir á hendur þeirra, sem fyrir hafa pólitíska valdið; þá fyrst sé veruleg hætta á misnotkun valdsins.