Þorsteinn Víglundsson hvarf nýlega úr starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins til að fara í framboð fyrir nýjan flokk sem „hægrikrati.“
Helstu skilyrði fyrir inngöngu í hinn nýja flokk eru að hafa stutt hin samhangandi mál að Íslendingar væru gerðir ábyrgir fyrir skuldum einkabanka og aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Forsvarsmenn flokksins hafa jafnframt rætt um að breyta landbúnaðarkerfinu. Þar er vissulega komið ágætt stefnumál.
En eins og dæmin úr atkvæðagreiðslu um búvörulögin á alþingi í vikunni sýna er því miður ekki alltaf hægt að treysta yfirlýstri stefnu krata í landbúnaðarmálum. Þetta bendir Þorsteinn reyndar sjálfur á með skrifum á Facebook í fyrradag:
Þetta er heldur dapurlegt að sjá. Þegar Alþingi tekur ákvörðun um að styrkja eina atvinnugrein um liðlega 13 milljarða króna á ári næsta áratuginn eða svo myndi maður ætla að þingmenn lægju ekki á skoðunum sínum, með eða á móti. Þessum samningi var hins vegar mætt með fjarveru eða hjásetu.
En í maí sendu Samtök atvinnulífsins frá sér umsögn um frumvarp til laga um nýja búvörusamninga. Þá var Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri þeirra og væntanlega farinn að huga að framboði fyrir Viðreisn, búinn að bretta upp ermarnar fyrir baráttuna gegn hinu miðstýrða landbúnaðarkerfi. Engu að síður segir í umsögninni:
Samtök atvinnulífsins telja ekki óeðlilegt að íslenskur landbúnaður njóti opinbers stuðnings en brýnt er að stuðningurinn hvetji til hagræðingar og aukinnar samkeppni innan greinarinnar.
Hvernig eiga ríkisstyrkir að hvetja til aukinnar samkeppni? Ríkisstyrkir spilla auðvitað heilbrigðri samkeppni.
Og svo segir í umsögninni:
Samtök atvinnulífsins fagna því að í nýundirrituðum búvörusamningum er að finna ákvæði um aukinna fjölbreytni í stuðningi við bændur.
Samtök atvinnulífsins undir forystu Þorsteins fögnuðu því að fjölbreyttari leiðir væru fundnar til að hafa fé að skattgreiðendum í landbúnaðarkerfið. Er hann á leið í framboð fyrir Framsókn eða Viðreisn?
Vissulega eru einnig í umsögninni athugasemdir við eitt og annað í búvörusamningunum og við tollverndina sem greinin nýtur en niðurstaðan er engu að síður sú að samtökin sem Þorsteinn stýrði fögnuðu ýmsum meginatriðum í samningunum, lýstu samt ekki beinum stuðningi við þá og lögðust ekki heldur gegn því að lagafrumvarpið sem staðfestir þá yrði samþykkt. Engin afstaða til málsins í heild kom fram. Eiginlega var þessi umsögn ekkert annað en hjásetan sem Þorsteinn gagnrýnir nú þingmenn fyrir.
Og þetta var samt fyrsta og versta útgáfa frumvarpsins, án mögulegrar endurskoðunar eftir þrjú ár.
En kannski mun Þorsteinn standa sig betur í þessum efnum nái hann kjöri á alþingi sem einn af 63 þingmönnum en sem framkvæmdastjóri mikilvægra samtaka. Það getur varla versnað.