Stjórnarandstaðan vildi ekki stöðva búvörusamninginn

Alþingi hefur samþykkt lög vegna nýs búvörusamnings. Lögin voru samþykkt með atkvæðum 19 þingmanna gegn 7 en aðrir þingmenn sátu hjá eða voru fjarverandi.

Margir stuðningsmanna stjórnarandstöðuflokkanna eru mjög reiðir sínum mönnum fyrir að hafa setið hjá, og segja að svo fáir stjórnarliðar hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni að stjórnarandstæðingar hefðu getað hafnað lögunum, ef þeir hefðu sagt nei en ekki setið hjá. Stjórnarandstöðuþingmennirnir segja að sú gagnrýni sé misskilningur, því málið hefði aldrei verið sett í atkvæðagreiðslu fyrr en nægilega margir stjórnarliðar hefðu verið í salnum til að samþykkja málið. Því hefði stjórnarandstaðan aldrei getað stöðvað málið.

Hvað sem mönnum finnst um búvörusamninginn þá er augljóst að stjórnarandstaðan hefði getað komið í veg fyrir samþykkt laganna um hann.

Hvernig hagar stjórnarandstaðan sér ef hún er raunverulega á móti einhverju máli? Hún stöðvar það.

Hún hertekur pontuna. Hún ræðir fundarstjórn forseta. Hún ræðir störf þingsins. Hún fer í andsvör við sjálfa sig. Á meðan eru haldnir útifundir, baráttugreinar skrifaðar í blöðin og borin í öll hús. Á meðan hamast áróðursvélin í Efstaleiti.

Eftir nokkra daga af þessu gefast stjórnarflokkarnir upp, draga málin til baka eða gerbreyta þeim.

Ef stjórnarandstaðan hefði viljað stöðva búvörusamningana þá hefði hún einfaldlega gert það sem hún hefur svo oft gert, þegar hún vill stöðva einhver mál ríkisstjórnarinnar. Enda hafa næstum engin mál farið í gegn á þessu kjörtímabili nema stjórnarandstaðan hafi leyft.

Stjórnarandstaðan ákvað einfaldlega að stöðva ekki búvörusamninginn. Málið flaug í gegnum haustþingið, engin töf, engin barátta í þingsalnum, enginn útifundur. Engin undirskriftasöfnun á meðan þingið hafði málið til meðferðar.

Stjórnarandstaðan heldur niðri í sér andanum. Hún bíður í ofvæni eftir því að ríkisstjórnin leiki mesta pólitíska afleik síðustu ára og stytti kjörtímabilið algerlega að óþörfu. Hún bíður eftir því að stjórnarmeirihlutinn afsali sér réttinum til að leggja fram fjárlagafrumvarp og fá það samþykkt. Hún bíður eftir að öruggt verði að kosningabaráttan verði bara örstutt, svo ekkert muni hagga því fólki nú ætlar að kjósa vinstriflokkana til valda. Hún trúir varla enn að ríkisstjórnin leiki svona af sér.

Haustkosningar yrðu ótrúleg afglöp. Stjórnarandstaðan tók ekki áhættuna af því að nokkurra daga átök um búvörusamninginn myndu vekja stjórnarliða af svefninum svo þeir hættu við algjörlega óþarfar haustkosningarnar. Þess vegna lét stjórnarandstaðan búvörusamninginn fara hávaðalaust í gegn.

Stjórnarandstaðan veit að ekki er of seint að hætta við haustkosningarnar. Þá yrðu samþykkt fjárlög sem sýndu efnahagsbatann. Svo tæki við kosningabarátta sem stæði nægilega lengi til þess að fólk sæi í gegnum reykinn.

Haustkosningar eru algert lykilatriði fyrir stjórnarandstöðuna.