Í umræðum um skatta á laun hér á landi er þessa dagana – eins og iðulega áður – reynt að ala á misskilningi á því hvernig skattkerfið virkar. Þannig hélt einn formaður stjórnarandstöðuflokks því fram í gær að taka ætti aftur upp hátekjuskatt til að þeir sem hefðu mjög há laun greiddu hærri skatta af launum sínum en þeir sem væru á tiltölulega lágum launum og nefndi tölurnar 20 milljónir og 200 þúsund á mánuði í þessu sambandi. Nú geta menn haft alls konar skoðanir á þessum launatölum, en það er aukaatriði í þessu sambandi. Aðalatriðið er að með málflutningi af þessu tagi reyna menn að afvegaleiða umræðuna og ná fram breytingum á skattkerfinu á röngum forsendum. Staðreyndin er sú að þeir sem eru með 20 milljónir króna á mánuði greiða margfalt hærri skatta en þeir sem hafa 200 þúsund krónur á mánuði. Og það er ekki aðeins svo að þeir greiði mun meira í krónum talið sem hafa hærri launin, þeir greiða einnig mun hærra hlutfall launa sinna í skatt.
Maður sem hefur 200.000 krónur í laun nú í ágúst greiðir 44.411 krónur í skatt af launum sínum, en sá sem hefur 20.000.000 krónur í laun greiðir hinu opinbera 7.314.971 krónu, og er þá í hvorugu tilvikinu gert ráð fyrir lífeyrisiðgjöldum eða öðrum frádráttum. Á þessum skattgreiðslum er umtalsverður munur þótt áhugamenn um enn hærri skatta láti í annað skína. Og áhugamenn um hærri skatta nefna gjarnan að á þessum tvennum launum sé hundraðfaldur munur og slíkur munur geti vart verið réttlætanlegur. Nú er þetta óneitanlega talsverður munur, en það er minna rætt um þá staðreynd að enn meiri munur er á skattgreiðslum þessara tveggja ímynduðu manna. Sá sem hefur 100 sinnum hærri laun greiðir 165 sinnum hærri skatta og fáir hafa líklega orðið til að nefna það síðustu daga að slíkt sé óréttlætanlegt.
Annað sem ætti einnig að vera augljóst en þvælist greinilega fyrir ýmsum sem um þessi mál fjalla, er að sá með háu launin greiðir miklu hærra hlutfall launa sinna í skatt en sá sem lægri launin hefur. Hálaunamaðurinn í þessu dæmi greiðir 36,6% launa sinna í skatt en hinn „aðeins“ 22,2%. Ástæðan er sú að persónuafslátturinn, sem er rúmar 29 þúsund krónur, nýtist þeim vel sem hefur lægri launin en skiptir hinn litlu máli hlutfallslega. Væri persónuafslátturinn felldur niður mundu báðir greiða 36,7% launa sinna í skatt, það er að segja staðgreiðsluhlutfallið eins og það kemur fyrir.
Og til að enginn haldi að það þurfi 20.000.000 króna á mánuði til að munur sjáist á skattgreiðslum, má bæta við að ef hálaunamaðurinn hefði mun lægri laun, til dæmis 2.000.000 króna á mánuði, mundi hann greiða 705.371 krónu í skatt, eða 35,3% launa sinna. Og þó að við lækkum hálaunamanninn enn, segjum til dæmis að hann sé með 1.000.000 króna á mánuði, þá mundi hann greiða 33,8% launa sinna í skatt, en sá með 200.000 krónurnar greiðir eins og áður sagði 22,2% í skatt. Það er því alger fjarstæða að halda því fram að allir greiði sömu skatta hér á landi sama hvort þeir hafa háar eða lágar tekjur.
Þetta eru staðreyndir málsins um það hvernig skattkerfið virkar hér á landi að því er snertir laun. Óvandaðir talsmenn hærri skatta, sem viðurkenna þó helst ekki að þeir vilji hækka skatta á launamenn, láta hins vegar jafnan eins og skattkerfið sé með einhverjum allt öðrum hætti. Þeir treysta því að áheyrendur setji sig ekki inn í hvernig kerfið virkar og láti þess vegna glepjast af rangfærslunum. Og fréttamennirnir, sem ættu að reyna að gæta þess að hlustendur fengju sem réttastar upplýsingar, leggja af einhverjum ástæðum lítið á sig til að leiðrétta útúrsnúning skattahækkunarsinna.