Frá bankahruni hefur mikið verið talað um „þverrandi virðingu Alþingis“. Alþingi er sagt njóta stöðugt minna trausts.
Þó er það svo að frá bankahruni hefur orðið ótrúleg endurnýjun í hópi þingmanna og var hún raunar hafin áður. Mikil endurnýjun varð í kosningunum 2007, einnig 2009 og 2013. Það stefnir svo í enn meiri endurnýjun í næstu kosningum, hvort sem þær verða næsta vor, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir, eða í haust eins og sagt hefur verið í nokkrum viðtölum.
Af 63 þingmönnum sem nú sitja á þingi og hafa umboð fram í apríl 2017, voru aðeins 17 á þingi þegar bankahrunið varð. Margir þeirra höfðu komið nýir inn árið 2007.
Það er því nokkuð ljóst að lítil virðing Alþingis stafar ekki af of lítilli endurnýjun. Hugsanlega hefur endurnýjunin verið of mikil eða að minnsta kosti ekki alltaf vel heppnuð.
Hvert er hlutverk Alþingis? Einfalt svar er að það sé að setja landsmönnum lög. Móta meginreglur sem fólk miðar svo við í daglegu lífi, í viðskiptum og á margan annan hátt.
Þetta svar er rétt en það er einnig einföldun. Ísland er ekki fyrirtæki. Ísland er lýðræðisríki. Hlutverk kjörinna fulltrúa er ekki að setjast niður að tjaldabaki og ná sameiginlegri niðurstöðu, þverpólitískri sátt. Hlutverk kjörinna fulltrúa er að takast á Kjörnir fulltrúar mega ekki gleyma því að þeir eru einmitt kjörnir fulltrúar. Þeir eru á þingi af því að nógu margir kusu stjórnmálaflokkinn þeirra. Þeir eru kjörnir fulltrúar en ekki embættismenn.
Alþingismenn ráða hvernig þeir greiða atkvæði. Þar þurfa þeir ekki að lúta öðru en eigin samvisku, eins og það er orðað. í því felst að þeir þurfa ekki að elta þær skoðanir sem eiga háværustu stuðningsmennina hverju sinni. Þeir þurfa ekki að hrífast með í hvert sinn sem samfélagsmiðlar taka eitthvert mál upp á sína arma.
Í lýðræðisríki hafa bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstæðingar mikilvægt hlutverk. Ef mál eru lögð fram í „þverpólitískri sátt“, hver talar þá máli þeirra Íslendinga sem eru andvígir málinu? Það er mjög algengt að mál séu afgreidd mótatkvæðalaust á þingi á Íslandi. Mál sem í mörgum öðrum löndum myndu vekja ákafar deilur með og á móti eru á Íslandi oft afgreidd mótatkvæðalaust.
Ef valdir yrðu 63 Íslendingar af handahófi hversu líklegt ætli það sé að þeir yrðu sammála um þessi sömu mál?
Ótal mál, þar sem menn gætu ímyndað sér að almennir kjósendur skiptust í afstöðu sinni í hlutföllum eins og 80/20, 70/30, 60/40, eru afgreidd á þingi án nokkurra mótatkvæða. Við afgreiðslu slíkra mála er ekkert sem bendir til þess að þessir 20, 30 eða 40 af hundraði kjósenda hafi í raun kosið í síðustu þingkosningum.
Hvaða áhrif ætli það hafi á „traust á Alþingi“ ef það er algengt að stórir hópar fólks fá á tilfinninguna að enginn þingmaður deili skoðunum þess í málum sem þessu fólki finnst þýðingarmikil?
Annað sem gæti haft áhrif á „virðingu Alþingis“ er hversu oft þingmenn láta hrífast með dægurumræðu sem fer hátt í skamman tíma. Er algengt að þingmenn segi fullum fetum að logandi netheimar hafi hreinlega rangt fyrir sér? Jafnvel þótt menn geti fengið stundarhrós fyrir að láta undan dægurumræðu þá er ekki víst að virðing þeirra til langs tíma vaxi við við það. Gæti ekki virðingin einmitt aukist með tímanum þegar menn sæju að tilteknir þingmenn hefðu fastmótaðar skoðanir sem ekki færu eftir skoðanakönnunum? Gæti virðingin ekki einnig aukist ef menn heyrðu þingmann færa fram rök gegn dægurumræðunni, rök sem menn sjálfir hefðu kannski ekki haft í huga áður?
Að sjálfsögðu eru ekki allir þingmenn undir þessa sömu sök seldir. Þar eru líka hugsjónamenn sem berjast fyrir skoðunum sínum án þess að hugsa um stundarvinsældir. En hugsanlega yrði virðing þingsins meiri ef fleiri þingmenn tækju alvarlega það hlutverk sitt að stunda raunverulega stjórnmálabaráttu, byggða á hugsjónum en ekki skoðanakönnunum.