Slök þátttaka miðað við hvað?

Eins og þetta litla vefrit er ágætt dæmi um hefur netið gjörbreytt því hvernig menn finna stjórnmálastarfi sínu farveg. Menn sem áður mættu á fundi hjá stjórnmálaflokkunum til að skiptast á skoðunum fylgjast nú með á skjánum  og bregðast við þegar þeim sýnist svo.

Þessi þróun varð svo enn hraðari með samfélagsmiðlunum svonefndu.

Eðlileg afleiðing af þessu, hið minnsta tímabundið, er að hluti af almennu flokksstarfi þynnist út. Fundum fækkar og þátttaka í hvers kyns viðburðum minnkar.

Þar á meðal fækkar þeim sem mæta og kjósa í prófkjörum flokkanna. Kannski telja menn sig eiginlega vera búna að kjósa með því að „læka“ mynd af frambjóðanda á Facebook.

Um helgina var prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Þar er löng hefð fyrir þessari aðferð við val á lista flokksins. Gríðarleg þátttaka var í þessum prófkjörum fyrir 10 til 15 árum en verulega hefur dregið úr henni hin síðari ár. Óvanalegt er að prófkjörsbaráttan fari fram um sumar líkt og að þessu sinni og ekki var heldur bitist um efsta sætið.

Engu að síður mættu 3.430 og kusu í prófkjörinu á laugardaginn. Þetta er ekki mikill fjöldi miðað við það sem mest var hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík en engu að síður er það fáheyrt í lýðræðisríkjum að allnokkur prósent kjósenda í einu kjördæmi (5% þeirra sem mættu á kjörstað í Reykjavík 2013) taki að sér að velja lista eins flokks á þennan hátt, geri sér ferð á kjörstað og raði frambjóðendum í númeraröð.

Egill Helgason starfsmaður Ríkisútvarpsins hefur þetta að segja um prófkjörið á Eyjunni:

Það sem vekur mesta athygli í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fór fram í dag er hin óvenjulega slaka kosningaþáttaka. Annað eins hefur varla sést hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.

Þetta er heldur köld kveðja til þeirra þúsunda sem tóku þátt í prófkjörinu, bæði frambjóðenda og kjósenda, fólks sem varði tíma sínum í þessa lýðræðislegu aðferð við val á framboðslista. Þessi þátttaka er nefnileg ekki slök í samanburði við neitt sem þekkist á Vesturlöndum – nema prófkjör Sjálfstæðisflokksins sjálfs á fyrri tíð.

Og margt bendir til að svo almenn bein þátttaka í stjórnmálastarfi sé liðin tíð.