Á fyrstu áratugum íslenskrar vinstrihreyfingar, þeirrar róttæku sem fylgdi Sovétríkjunum, var fylgst nákvæmlega með því að félagsmenn væru á réttri línu. Enginn mátti efast um kennisetningarnar. Þeir sem ekki fylgdu kenningunum voru látnir standa upp á fundum og játa á sig mistök sín. Stundum voru gerðar ályktanir um hugmyndafræðilegar villur einstakra félagsmanna og loks gátu þeir orðið fyrir því sem verst var, brottrekstri úr flokknum.
Þetta var þegar menn kepptust um að vera sem róttækastir. Þá mátti enginn efast um neina kennisetningu, enda var allt byggt á því að þær væru réttar. Væru þær það ekki, væri undirstaðan engin.
Misjafnt er hversu stjórnmálamenn eru fúsir til að segja hug sinn til þeirra deilumála sem upp koma. Margir eru að vísu tilbúnir að tjá sig um flest, en ekki er víst að alltaf búi hugur að baki. Ótrúlega margir virðast elta það sem þeir halda að sé fallið til stundarvinsælda, eða að minnsta kosti gæta þess að segja ekkert sem myndi kalla á háværa gagnrýni.
Einn þeirra sem oft virðist segja hug sinn hreinskilnislega er Ögmundur Jónasson þingmaður vinstrigrænna. Á dögunum var hann einn gesta í útvarpsþætti þar sem aðrir þátttakendur fóru að halda því fram að konur mættu meiri ósanngirni í stjórnmálum en karlar og það væri ein ástæða þess að stjórnmálaferill kvenna væri yfirleitt styttri en karla.
Ögmundur leyfði sér að draga þetta í efa. Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins af þættinum sagði hann:
Mér finnst konur oft, þetta er svona svolítið klisjutal um það að konur hugsi öðruvísi en karlar og eitthvað svoleiðis, en ég hef ekki upplifað þetta svona. Mér finnst konur jafnt sem karlar vera mismunandi einstaklingar sem að ræða hlutina á mismunandi hátt saman. Sumir karlar eru frekir og yfirgangssamir og aðrir eru það ekki, og það nákvæmlega sama gildir um konur.
Þetta hljómar skynsamlega. Af hverju er alltaf verið að búa til einhverjar heildir úr konum annars vegar og körlum hins vegar?
En mörgum fannst þetta alveg svívirðilegt hjá Ögmundi. Hann væri að vefengja „upplifun kvenna“, rétt eins og konur hefðu einhverja eina rétta upplifun.
Og Ögmundur átti ekkert að komast upp með að halda fram röngum skoðunum í máli þar sem aðeins á að leyfa eina skoðun. Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna kom saman og sendi frá sér ályktun. Þar sagðist framkvæmdastjórnin harma orð Ögmundar. Og harmurinn nægði ekki heldur var tekið fram að Ögmundur talaði eins og „versta málpípa feðraveldisins“, sem er ekki lítill glæpur. Ungliðarnir sögðu einnig að ummælin væru þvert á stefnu vinstrigrænna, sem þýðir að stefna vinstrigrænna sé sú að það sé staðreynd, sem ekki megi mótmæla, að konur í stjórnmálum mæti meiri ósanngirni en karlar. Ungliðarnir kröfðust þess að forysta flokksins gerði almenningi það ljóst, að það að Ögmundur hafi þetta ekki á tilfinningunni sé gegn stefnu flokksins og þeir kröfðust þess að Ögmundur bæði konur í stjórnmálum og Vinstrihreyfinguna grænt framboð afsökunar á orðum sínum.
Svona álykta umburðarlyndir menn sem bráðum fá völdin í landinu afhent. Fram að því verða þeir að láta sér nægja að krefjast þess að Ögmundur Jónasson biðjist afsökunar á því að hafa það ekki á tilfinningunni að konur í stjórnmálum mæti meiri ósanngirni en karlar. Ögmundur mun svo ganga milli stjórnmálakvenna og biðja þær afsökunar. Hann byrjar á Vigdísi Hauksdóttur.
Þetta er í raun ótrúlegt ofstæki. Það er ekki eins og maðurinn hafi verið að halda því fram að tvisvar sinnum tveir væru fimm. Fyrir utan það augljósa að í þessu efni verður ekki sönnuð vísindalega rétt niðurstaða. Það er ekki hægt að mæla sanngirni, kurteisi og yfirgang annars kynsins umfram hitt vísindalega og fá út óumdeilanlega niðurstöðu. Menn geta haft eitthvað á tilfinningunni og menn geta vísað í einhver tiltekin dæmi sem þeim finnst styðja tilfinninguna, en lengra nær það ekki.
Ögmundur Jónasson hefur mikla reynslu eftir langan feril. Hann er tæplega sjötugur sagnfræðingur sem hefur setið á þingi í tuttugu ár, verið ráðherra og í mörg ár formaður stórs verkalýðsfélags. Þar áður var hann fréttamaður. Getur ekki verið að hann hafi eitthvað áhugavert fram að færa? Hvers vegna má hann ekki lýsa skoðunum sínum eða tilfinningu fyrir þessu máli? Hvernig getur það, að Ögmundur hafi eitthvað ekki á tilfinningunni, verið andstætt stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs? Er stefna flokksins að Ögmundur hafi þetta á tilfinningunni? Er eitthvað meira sem honum er skylt að hafa á tilfinningunni?
Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir hafa lengi starfað hlið við hlið. Alla valdatíð síðustu ríkisstjórnar voru þau saman í ríkisstjórn og allt þar til nokkrum vikum fyrir kosningar 2013 voru þau formaður og varaformaður Vinstrigrænna. Milli þeirra hefur aldrei verið ágreiningur um neitt sem sagt hefur verið frá, Þau greiddu alltaf atkvæði eins. Katrín studdi fulkomlega við aðgerðir Steingríms, ESB-umsóknina, Icesave, landsdómsákæru gegn Geir H. Haarde og allt annað. Enginn gagnrýnir Katrínu fyrir neitt af þessu. Fjöldi manns telur að hún sé heiðarlegasti Íslendingur allra tíma.
Það verður skemmtilegt þegar Ögmundur bankar upp á hjá Katrínu til að biðjast afsökunar á að hafa það ekki á tilfinningunni að hún fái harðari meðferð en karlarnir.