Í blöðunum undanfarna daga hefur mátt sjá auglýsingar um heyrnartæki frá ríkisstofnuninni Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Eins og gengur eru þeir sem selja tæki og tól afar ánægðir með þau og lofa þau mjög. Í þessu tilviki eru tækin sögð veita mönnum heyrn sem tekur „eðlilegri heyrn fram“.
Fyrir 15 árum þurfti fólk að bíða mánuðum og árum saman eftir heyrnartækjum. Menn fóru á biðlista hjá hinu opinbera. Þá var Heyrnar- og talmeinastöð Íslands eini söluaðili heyrnartækja á landinu.
Árið 2001 hóf fyrsta einkafyrirtækið að selja heyrnartæki og þjónusta notendur þeirra. Fleiri fyrirtæki hafa svo bæst í hópinn og bjóða fjölbreytt úrval heyrnartækja og þjónustu þeim tengdum.
Að vísu nýtur ríkisstofnunin enn forskots á einkafyrirtækin að því leyti að ríkið niðurgreiðir aðeins heyrnartæki keypt hjá henni fyrir fólk með mjög skerta heyrn.
En um leið og ríkiseinokuninni lauk styttist biðtíminn eftir heyrnartækjum úr því að vera eitt og hálft ár niður í núll. Nú geta menn með öðrum orðum gengið inn hjá seljendum heyrnartækja, látið mæla í sér heyrnina, valið tæki við hæfi, fengið hlustarstykki sem því fylgir sérsmíðað og fengið tækið daginn eftir.
Þá hlýtur sú spurning að vakna: Hvers vegna er ríkið – sem aldrei bauð sómasamlega þjónustu á þessu sviði á meðan það naut einokunar – enn að selja þessi raftæki í samkeppni við einkafyrirtækin?