Vinstriflokkarnir, þessir sem síðast sátu í ríkisstjórn fram á síðasta dag og það eftir að hafa tapað tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og höfðu þá fyrir löngu misst starfhæfan meirihluta á þinginu, krefjast þess nú á hverjum degi að núverandi kjörtímabil verði stytt.
Formenn VG og Samfylkingarinnar, þær Katrín Jakobsdóttir og Oddný Harðardóttir, sem báðar sátu í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, voru á dögunum spurðar um þær hugmyndir að næsta kjörtímabil, það sem hefst eftir næstu þingkosningar, verði styttra en venjulega, svo að hraða megi stjórnarskrárbreytingum.
Svör þeirra Katrínar og Oddnýjar voru einföld. Nei, við ætlum ekki að stytta næsta kjörtímabil. Katrín tók fram að hún hefði ekki séð nein rök fyrir slíkri styttingu.
Raunar er það svo að fyrir slíkri styttingu væru ein rök frá bæjardyrum vinstri manna séð: Það myndi flýta fyrir gildistöku stjórnarskrárbreytinga. Vinstrimenn láta stundum eins og þeim þyki í raun mikilvægt að breyta stjórnarskránni, og til þess að breyta henni þarf samþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Svo, ef menn telja í raun mikilvægt að breyta stjórnarskránni, þá væru auðvitað rök til að stytta næsta kjörtímabil.
En vinstriflokkarnir gera ráð fyrir að verða sjálfir við völd á næsta kjörtímabili. Þess vegna má ekki stytta það. Alveg eins og ekki mátti stytta síðasta kjörtímabil.
Það er bara núverandi kjörtímabil sem verður að stytta.