Vinstrivaktin í vinstriráðuneytinu

Enn eitt litla „góða málið“ til að færa þjóðfélagið örlítið til vinstri. Hver getur nú verið á móti „gjaldfrjálsum“ trélitum? Mynd: Levente Fazakas/Shutterstock.

Eitt af því sem síðasta vinstristjórn gerði var að breyta nafni nokkurra ráðuneyta og sameina ýmis ráðuneyti . Meðal breytinganna var að „félagsmálaráðuneytið“ er ekki lengur til en hins vegar er komið „velferðarráðuneytið“. Hlutlaust nafn er farið en gildishlaðið komið. Hver er á móti „velferð“?

Núverandi ríkisstjórn hefur engu breytt af þessu. Þau ráðuneyti sem Jóhanna Sigurðardóttir taldi rétt að sameina, eru áfram sameinuð. Ráðuneytin heita núna þeim nöfnum sem Jóhönnustjórnin ákvað.

Á Jóhönnustjórnarárunum var einnig stofnuð „velferðarvaktin“. Hún á að veita stjórnvöldum ráð um velferðarmál og fylgja þeim eftir. Að henni standa ráðuneyti, ríkisstofnanir, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins.

Nú síðast var „velferðarvaktin“ að leggja til að sveitarfélög sæu til þess að foreldrar þyrftu ekkert að greiða fyrir ritföng sem grunnskólabörn fá í skólunum.

Enn eitt litla „góða málið“ til að færa þjóðfélagið örlítið til vinstri. Hver getur nú verið á móti þessu?

Auðvitað verða alltaf til einhverjir sem hafa minna milli handanna en aðrir, hvaða ástæður sem eru fyrir því hjá hverjum og einum. Það er sjálfstætt mál að rétta því fólki hjálparhönd. En það er allt annar hlutur að gera það að meginreglu að gengið sé út frá því að þetta sé hið almenna ástand.

Nú er fólk á ferð og flugi í sumarleyfinu. Þegar það kemur til baka segja „velferðarmenn“ að ekki megi rukka það fyrir blýantstubb í skólunum. Allt verður að vera „án greiðsluþátttöku“ – það er að segja á kostnað útsvarsgreiðenda.