Í síðustu viku undirrituðu ráðherrar og forstjórar íþróttahreyfingarinnar „samning“ um að ríkið myndi stórhækka framlögin til íþróttahreyfingarinnar. Þetta bætist ofan á þann mikla stuðning sem felst í leyfi til lottós og getrauna. Af einhverjum ástæðum er þess stuðnings sjaldan getið þegar talað er um hvað ríkið geri, eða frekar geri ekki, fyrir íþróttahreyfinguna og fyrir öryrkja.
„Samningurinn“ er auðvitað fyrst og fremst yfirlýsing um að stjórnmálamenn hyggist leggja til að Alþingi hækki opinber framlög til þrýstihóps. En hann er til marks um annað, sem miklu máli skiptir.
Ríkisvæðingin heldur áfram. Það er sífellt verið að stækka ríkið en minnka einstaklinginn.
Fleira og fleira er lagt undir hið opinbera. Stórt og smátt, sem ætti að vera hlutverk einstaklinga og félaga þeirra, er gert að verkefni hins opinbera. Úthlutun opinbers fjár, sem innheimt eru með nauðung af borgurunum, tekur við af vinnu og fjárframlögum frjálsra borgara.
Íþróttafélög ættu að vera rekin fyrir félagsgjöld og þær tekjur sem félögin afla sér, til dæmis með sölu aðgöngumiða á leiki. Íþróttafélög eiga að fá tekjur frá sjálfráða fólki og fyrirtækjum, en ekki frá skattgreiðendum. Hvers vegna eiga skattgreiðendur að koma sér upp „afreksmönnum“ í einstökum íþróttagreinum?
Ríki og sveitarfélög eru réttlætt með nauðsyn. Að eitthvert opinbert vald verði að setja grundvallarreglur og halda þeim uppi. Útbreidd samstaða mun einnig um að hið opinbera eigi að tryggja öllum aðgang að læknishjálp, grunnmenntun og fleiru slíku.
Gott og vel. En hvernig geta menn teygt þessa nauðsyn yfir í að sjá til þess að einhver Íslendingur verði í fremstu röð í sleggjukasti?
Fáir segja neitt. Það er vegna þess að ríkisvæðingin hefur fengið að breiðast út nær óáreitt í mörg ár. Kjörnir fulltrúar hægrimanna, hvort sem er á þingi eða í sveitarstjórn, grípa fáir til varna, þótt nokkrir geri það vissulega.
Ríkið á að borga í íþróttafélögin. Ekki aðeins í „afrekssjóðina“ heldur ótalmargt annað. Það þarf til dæmis að niðurgreiða kostnað við keppnisferðir. Það er auðvitað hlutverk ríkisins. Sveitarfélögin dæla peningunum líka. Þau leggja velli og reisa stúkur. En það er aldrei hægt að lækka tekjuskattinn eða útsvarið. Peningarnir eru ekki til.
Það er ekki aðeins hlutverk hins opinbera að búa til afreksmenn í spretthlaupi. Hið opinbera verður einnig að sjá til þess að áhugamenn um fínar bíómyndir fái að sjá fínar bíómyndir en ekki bara eitthvert rusl. Reykjavíkurborg dælir milljónum króna í „Bíó Paradís“, en enginn segir neitt. Það er ekki hægt að lækka útsvarið samt.
Ríkið er líka stórtækur kvikmyndaframleiðandi. Þar hafa stjórnmálamenn líka gert „samning“ við kvikmyndagerðarmenn um að kvikmyndagerðarmenn þiggi miljónir úr ríkissjóði. En það er ekki hægt að lækka skatta. Ríkið er meira að segja svo aflögufært að það niðurgreiðir kostnað erlendra kvikmyndagerðarmanna af tökum á Íslandi. Það er hægt að niðurgreiða laun Tom Cruise en það er ekki svigrúm til að lækka skatta.
Það er svo erftt að lækka skatta að menn vilja frekar efna til þingkosninga en að samþykkja ný fjárlög.
Allt tengist þetta ríkisvæðingunni. Einu sinni barðist venjulegt fólk fyrir mannréttindum. Það voru grundvallarréttindi. Réttur til lífs og eigna. Atvinnufrelsi. Nú hefur hið opinbera tekið mannréttindabaráttuna yfir. Sveitarfélög stofna „mannréttindanefndir“ en þær hafa engan áhuga á eignarrétti eða atvinnufrelsi. Þær hafa hins vegar gert úttekt á kynjahlutföllum stjórnenda popptónlistarþátta á einkareknum útvarpsstöðvum.
Enginn segir neitt við því heldur. Hægrimenn í sveitarstjórnum benda ekki á að „mannréttindi“ séu ekki verkefni sveitarfélaga. Þeir segja eiginlega ekki neitt.
Á fleiri og fleiri sviðum fær hið opinbera að ráða því hvernig menn haga lífi sínu. Þeir mega ekki reykja nema þar sem ríkið leyfir þeim. Þar skiptir ekki máli þótt húsráðandinn vlji leyfa reykingar. Ef einhver vill reisa fjögurra hæða hús án þess að hafa þar lyftu, þá verður hann að fara úr landi til þess. Slíkt er ekki leyft hér á landi. Það má ekki taka „smálán“ nema á vöxtum sem ríkinu finnst vera sanngjarnir. Að sjálfsögðu má fólk ekki ráða þessu sjálft. Ríkið setur reglur um verðmerkingu á vörum í verslunum, svona eins og einhver sé neyddur til þess að kaupa vöru sem ekki var með verðmiða. Eigendur einkafyrirtækja mega ekki kjósa eintómar konur í stjórn fyrirtækisins. Ríkið er búið að ákveða lágmarkshlutfall „hvors kyns“ í stjórnirnar. Ríkið er búið að taka að sér fjármögnun stjórnmálaflokka. Hundruð milljóna af skattfé renna til flokkanna á hverju ári og enginn segir neitt. Á sama tíma þrengir ríkið að rétti annarra til að styðja þau stjórnmálasamtök sem þeir vilja.
Þróunin er samfelld í sömu átt. Margir stjórnmálamenn af hægri kantinum gera ekkert til að snúa henni við. Þeir segja aldrei að fólk eigi að fá að ráða lífi sínu sem mest sjálft og taka eigin ákvarðanir eftir eigin gildismati. Þeir sitja í sveitarstjórnum og ráðuneytum og láta alla ríkisvæðinguna viðgangast.
Kannski er rangt að taka „smálán“ til að komast á Þjóðhátíð. Kannski á ekki að reykja vindil eftir matinn. Kannski á ekki að kjósa eintóma karla í stjórn Bifreiðaverkstæðis Búdda hf. Kannski á ekki að borða snúð um miðjan daginn, allan ársins hring, Kannski á ekki að hjóla hjálmlaus. Kannski á að giftast þessum en ekki þessum. Kannski á að hætta í sálfræðinni og fara að vinna í bakaríi. Kannski er alger vitleysa að reka dekkjaverkstæði og snyrtistofu án þess að hafa jafnréttisáætlun. Kannski og kannski ekki. Margar ákvarðanir af þessu tagi geta reynst rangar en sá, sem tekur þær, tekur sína eigin ákvörðun. Og í því, að geta tekið sína eigin ákvörðun, eftir sínu eigin gildismati, og hafa bara við sig að sakast um afleiðingarnar, er fólginn stór hluti þess að vera frjáls maður.