Í síðasta mánuði var ákveðið að Bretland segði sig úr Evrópusambandinu. Sú ákvörðun vakti mikla reiði margra þeirra sem urðu undir í kosningunni. Margir þeirra kröfðust þess að kosið yrði aftur. Og svo líklega aftur og aftur þar til „rétt“ niðurstaða fengist.
Fjölmiðlamenn og álitsgjafar gáfu margir þá stöðluðu mynd af úrslitunum að „unga fólkið“ hefði viljað vera í Evrópusambandinu en „gamla fólkið“ ekki. Um það geta menn að sjálfsögðu ekkert vitað, annað en það sem skoðanakannanir benda til, því kjörseðlar eru að sjálfsögðu hvergi flokkaðir eftir aldri kjósenda. En skoðanakannanir bentu til að talsverður meirihluti ungra kjósenda ætlaði að kjósa áframhaldandi veru í ESB en talsverður meirihluti þeirra eldri vildi að Bretland gengi út.
Æsingamenn sem tala í nafni ungra kjósenda höfðu margt um þetta að segja. „Þið stáluð framtíðinni minni“ sögðu baráttumenn á spjöldum sem þeir báru í mótmælagöngum. Þetta endurómuðu fjölmiðlamenn víða. Gamla fólkið stal framtíðinni af unga fólkinu.
Ætli þetta unga fólk sem hrópaði á götuhornum hafi einhvern tíma haft eitthvað annað að segja við eldri kynslóðir en skammir fyrir að kjósa vitlaust?
Hefur unga fólkið með réttlætiskenndina einhvern tíma staðið með skilti þar sem stendur: „Takk fyrir að byggja upp frjálst þjóðfélag.“ Eða „Takk fyrir að ég fæddist í landi þar sem eru skólar og sjúkrahús“. Eða „Takk fyrir að ég fæddist í landi með öflugu efnahagslífi“. Eða jafnvel við elsta fólkið: „Takk fyrir gefast ekki upp á fimmta áratugnum þegar stjórnin í Berlín vildi ná allri Evrópu undir þýska stjórn.“
Hafa þeir háværu með réttlætiskenndina sagt eitthvað í þessa veru? Eða hafa þeir látið sér næja að skamma eldri kjósendur fyrir að hafa ekki kosið eins og þeir háværustu ungu?
Í breska tímaritinu Spectator skrifaði hin prýðilega leikkona, Elizabeth Hurley, dagbókina í síðustu viku. Þar segir hún: „I will […] allow myself to be rude about the hoards of post-Brexit whingers who claim to love democracy but object violently to anyone who disagrees with them. Bring it on you ranting luvvies, fat-cat bankers and multinational corporations. Continue to alienate the humble voice of Middle England. Knock yourselves out calling us ill-educated Neanderthals and spit a bit more venom and vitriol our way. You are showing yourselves in all your mean-spirited, round-headed, elitist glory, and what an unappealing lot you are.
Vefþjóðviljinn 195. tbl. 20. árg.