Vefþjóðviljinn 163. tbl. 20. árg.
Fjölgun erlendra ferðamanna á landinu hefur ekki farið fram hjá mönnum. Svo mikil aukning gesta, á skömmum tíma, verður auðvitað til þess að ýmislegt verður af skornum skammti. En það er eðli frjáls markaðar að fjölmargir sjá sér hag í að bæta úr skorti annarra. Hótel spretta upp, gistiheimili eru opnuð á ótrúlegustu stöðum, næstum hver einasti maður með meirapróf er byrjaður að aka rútu og svo framvegis.
Samkvæmt fréttum er þó einni þörfinni illa mætt. Og er það raunar þörf sem flestir finna reglulega hjá sér þörf til að sinna og vilja ekki vera í miklum vandræðum með það.
Það vantar salerni úti um allt.
Hvers vegna ætli frjálsi markaðurinn sé ekki á fullum krafti að leysa það vandamál?
Það er kannski af því að stjórnmálamenn þurftu að skipta sér af málinu. Þeir vilja alls ekki að eigendur lands, sem ferðamenn vilja sækja heim, fái að innheimta gjald af þeim sem fara um land þeirra. Þess vegna er salernisskortur á ferðamannastöðum kominn “inn á borð ríkisstjórnarinnar”, eins og sagt var í fréttum.
Sömu stjórnmálamenn sjá ekkert að því að sveitarfélög setji upp stöðumæla og heimti gjald af þeim sem leggja bílnum sínum á götum sem sveitarfélögin eiga.
Ferðamaður leigir sér bíl og leggur honum á Skólavörðustígnum. Dagur Eggertssonkemur með stöðumælinn og ferðamaðurinn borgar 500 krónur og sér ekkert að því. Svo ekur ferðamaður að Seljalandsfossi og þar má ekki rukka hann um krónu. Því þá fær hann neikvæða mynd af landinu. Landið verður moldarsvað en ráðherra ferðamála skipar starfshóp.