Vefþjóðviljinn 153. tbl. 20. árg.
Það er hvimleitt þegar menn falla í þá gryfju að ætla stórum hópi einstaklinga einhverja allsherjareiginleika, sem engin sérstök ástæða er til að ætla að hver og einn þeirra hafi. Þetta er oft nefnt „fordómar“, þótt það sé ekki alltaf réttnefni.
Þeir sem þannig hugsa slá iðulega fram einhverju vanhugsuðu um hópa manna. Þeir telja gjarnan að „blökkumenn“ séu svona og svona, „samkynhneigðir“ svona, trúaðir séu allir með tiltekna eiginleika og svo framvegis. Svertingjar eru latir, segir einn. Samkynhneigðir eru víðsýnir, fullyrðir annar. Repúblikanar eru stríðsóðir, umhverfisverndarsinnar eru einfeldningar, stjórnmálamenn eru spilltir og leikarar fyllibyttur. Allt eru þetta einfeldningslegar fullyrðingar, sem vel geta átt við einhvern mann úr hverjum hópanna, en alls ekki um alla í neinum hópnum.
Í grein í Morgunblaðinu í dag skrifar Kári Gunnarsson kennari grein þar sem hann fjallar um texta sem hann hafði lesið eftir tónlistar- og sjónvarpsmanninn Unnstein Manúel. Kári segir:
Í niðurlagi greinar sinnar segir Unnsteinn að hann þurfi að gæta þess að viðra ekki mikið sínar pólitísku skoðanir, annars reki „ákveðnir framsóknarmenn“ útvarpsstjóra. Nú veit ég ekki við hvaða framsóknarmenn Unnsteinn hefur rætt hlutskipti flóttamanna, sem hugleiðing hans fjallar um. Né heldur hvaða framsóknarmenn hann telur hafa vald til að reka útvarpsstjóra. Hins vegar held ég að þarna hafi Unnsteinn dottið í þá gildru að nota elsta bragðið úr elstu bókinni, sem er að gera hóp fólks tortryggilegan, í þessu tilfelli framsóknarmenn. … Þó að ég hafi ekki flokksskírteini í Framsóknarflokknum, eða öðrum flokkum ef út í það er farið, þekki ég nokkra framsóknarmenn og það er mín reynsla að þeir séu ekki verri eða betri en fólk úr öðrum flokkum. Þó að ég þekki morðingja og fleiri ógæfumenn persónulega gefur það mér ekki rétt til að kalla fjölskyldur þeirra glæpagengi. Sama ætti að gilda um Unnstein; þó að hann kunni að hafa óbeit á einstaklingum í Framsóknarflokknum má hann ekki gefa sér að allir þar á bæ séu rasistar. Sérlega ekki ef hann ætlar að fjalla um mál sem þessi sem fagmaður í fjölmiðlum. Í greininni mælir Unnsteinn öðru hvoru fyrir munn ímyndaðs rasista sem eys úr brunni mannfyrirlitningar og ógeðs í garð annarra en hvítra Evrópubúa. Ef Unnsteinn er þarna að setja sig í stellingar sinnar eigin staðalmyndar af framsóknarmanni þarf hann sannarlega að vinna í fordómum sjálfs sín gagnvart þúsundum samlanda sinna.“
Ábending Kára er athyglisverð. Vefþjóðviljinn hefur ekki lesið grein Unnsteins, sem Kári fjallar um, og getur því ekki fullyrt um réttmæti orða Kára um hana. En almenna atriðið má taka undir, að það er ástæða til að vara við sleggjudómum þar sem hópi manna eru ætlaðir eiginleikar sem ekkert liggur fyrir um að þeir hafi.