Vefþjóðviljinn 150. tbl. 20. árg.
Til dæmis má nefna frumvarp Guðlaugs Þór Þórðarsonar og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fengist það samþykkt þyrftu launagreiðendur að aðgreina tekjuskatt til ríkisins og útsvar á launaseðlum. Hætt er við að mörgum kæmi á óvart að sveitarfélögin hirða í mörgum tilvikum meira úr launaumslögum en ríkissjóður. Enda fullnýta mörg þeirra, eins og Reykjavíkurborg, „skattstofna“ sína sem er það heiti sem þau velja gjarnan skattgreiðendum.
Og úr því minnst er á Reykjavíkurborg þá hefur Sigríður Á. Andersen lagt framfrumvarp í félagi við fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins um að afnema þá skyldu sem vinstri stjórnin lagði á Reykjavíkurborg að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í að lágmarki 23 eða allt að 31. Búið er að mæla fyrir þessu frumvarpi og það bíður þess að koma aftur inn í þingsal úr nefnd.
Sigríður hefur sömuleiðis lagt fram frumvarp með Frosta Sigurjónssyni, Willum Þór Þórssyni og Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem frestar þeirri þvingun sem vinstri stjórnin leiddi í lög að orkusnauðu, dýru og óumhverfisvænu lífeldsneyti, sem unnið er úr matjurtum, sé blandað í hefðbundið eldsneyti. Núgildandi lög kosta Íslendinga stórfé í erlendum gjaldeyri. Er það sérstakt svo ekki sé meira sagt að ríki eins og Ísland eyði miklum fjármunum í að taka mat frá fólki og brenna honum í bílum.
Að lokum má svo nefna frumvarp þingmanna fjögurra flokka með Vilhjálm Árnason Sjálfstæðisflokki í fararbroddi um verslunarfrelsi með áfenga drykki. Andstæðingar frumvarpsins vilja ekki eyða tíma þingsins í að ræða þetta mál og því er ekkert annað til ráða en að greiða atkvæði um málið og koma því þar með af dagskrá. Að vísu hafa andstæðingar frumvarpsins ekki þyngri áhyggjur af því að tíma þingsins sé sóað í umræður um áfengismál en svo að þeir flykktust í pontu í síðustu viku til að ræða starfsemi kampavínsklúbba.