Vefþjóðviljinn 121. tbl. 20. árg.
Fyrr í vetur hét Kári Stefánsson því að safna 100 þúsund undirskriftum til hjálpar heilbrigðiskerfinu, svona eins veruleg andstaða sé við það meðal stjórnmálamanna að bæta kerfið.
…munum við nokkrir félaga safna 100.000 undirskriftum undir plagg sem hvetur landsmenn til þess að kjósa aldrei aftur þá stjórnmálaflokka sem standa að þessari ríkisstjórn vegna þess kulda og afskiptaleysis sem hún sýnir sjúkum og meiddum í okkar samfélagi.
Þetta mistókst hjá Kára þótt hann hafi margframlengt netsöfnunina sem stóð á fjórða mánuð með auglýsingaflóði og undirspili ríkisútvarpsins.
Mikill meirihluti kosningabærra manna skrifaði nafn sitt ekki undir kröfugerð Kára. Aðeins ríflega þriðjungur skrifaði undir.
Líkt og hér hefur árið verið rakið samþykkti alþingi árið heimild til fjármálaráðherra til að veita bandarísku fyrirtæki að nafni deCODE Genetics Inc. ríkisábyrgð upp á US$ 200.000.000 vegna aukinnar starfsemi dótturfélags, Íslenskar erfðagreiningar, hér á landi.
DeCODE Genetics Inc. hafði verið stofnað árið 1996 og 1999 höfðu íslenskir ríkisbankar skorið erlenda stofnfjárfesta í félaginu úr snörunni með því að kaupa hlutabréf þeirra. Verðið sem ríkisbankarnir greiddu samsvaraði því að fyrirtækið væri verðmætara en nokkurt íslenskt fyrirtæki. Þó var þetta á þeim árum sem mikið var lagt upp úr því að fá erlenda fjárfestingu til landsins, ekki öfugt.
DeCODE Genetics Inc. óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í Bandaríkjunum árið 2009.
US$ 200.000.000 eru 26 milljarðar króna. Það er ríflega helmingur af rekstrarkostnaði Landspítalans á ári.
Maðurinn sem fór fram á þessa ofboðslegu ríkisaðstoð við hið bandaríska fyrirtæki heitir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári vildi fremur að þessir fjármunir rynnu í fyrirtæki sitt en heilbrigðiskerfið. Er hægt að hugsa sér meiri „kulda og afskiptaleysi“ gagnvart „sjúkum og meiddum í okkar samfélagi“?