Vefþjóðviljinn 118. tbl. 20. árg.
Stjórnarandstaðan og fréttamenn hennar þrýsta eins og þau geta á þingmeirihlutann að rjúfa þing og boða til kosninga löngu áður en kjörtímabilinu lýkur. Þetta er mjög skiljanlegt, því með slíku myndi stjórnarmeirihlutinn leika ótrúlega mikinn pólitískan afleik. Hvaða stjórnarandstaða fagnar því ekki ef stjórnarmeirihlutinn leikur af sér?
En það er svolítið sérstakt að stjórnarandstaðan og fréttamennirnir hamist á ráðherrunum um að kjörtímabilið verði stytt. Er ekki einhver annar sem þeir ættu líka að nauða í?
Hvers vegna liggja þau ekki í forseta Íslands og fá hann til að samþykkja að þing verði rofið, löngu fyrir lok kjörtímabilsins?
Fyrir fáum vikum hélt forseti Íslands blaðamannafund og sagðist þar hafa hafnað beiðni forsætisráðherra um þingrof. Fréttamenn og flokksleiðtogar áttu ekki til orð yfir afreki forsetans, rétt eins og forseti Íslands hefði eitthvað val um það hvort hann féllist á tillögu forsætisráðherra um þingrof.
Það hefði verið fráleitt að rjúfa þingið. En það að sú ákvörðun hefði verið fráleit, gerir það ekki að verkum að forsætisráðherra hefði verið óheimilt að taka hana, eða að forsetanum hefði verið heimilt að hindra hann í því.
En ef það er nú rétt hjá Ólafi Ragnari og þeim sem hrifust með honum á dögunum að forsetinn eigi eitthvert val um það hvort hann fellst á tillögu ráðherra, þá er ekkert einkamál ráðherra að ákveða þingrof. Samt virðist enginn þeirra, sem krefja ráðherrana um þingrof og kosningar, ímynda sér að forseti Íslands ráði einhverju um málið. Enginn krefur hann um að ákveða kjördag sem fyrst svo vinstristjórn Pírata geti tekið við stjórninni áður en að efnahagsástandið í landinu batnar of mikið.
Menn ættu ekki að gleyma því að þegar forsetinn sagðist hafa neitað þáverandi forsætisráðherra um þingrofsheimild lá fyrir alþingi tillaga formanna allra stjórnarandstöðuflokkanna um að þing yrði rofið þegar í stað. Hafi þáverandi forsætisráðherra í raun lagt þingrof til, hefði forsetinn því mátt gera ráð fyrir að meirihluti alþingis styddi tillöguna, sem var reyndar alls ekki enda var ráðherrann í sannkölluðum einkaerindum. Samt segist forsetinn hafa ákveðið að verða ekki við henni.
Menn ættu bara að spyrja sig hver getur borið ábyrgð á ákvörðun um þingrof. Ef síðar yrði talið að þingrofið hefði verið gegn hagsmunum landsins og af því hefði hlotist stórtjón, hver bæri ábyrgð á því? Það væri hægt að stefna ráðherranum fyrir landsdóm en forsetinn bæri enga ábyrgð. Enda er forsetinn ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum en ráðherra ekki.