Vefþjóðviljinn 68. tbl. 19. árg.
Meðal efnis í vorhefti Þjóðmála 2015 er umfjöllun Ólafar Nordal innanríkisráðherra um öryggi Íslendinga í yfirgripsmikilli grein um lögreglu og öryggismál í alþjóðasamhengi og þær hættur sem steðja að ríkjum í viðsjárverðum heimi. Úttek Þjóðmála um eldsneytismál, leiðir í ljós að lög um endurnýjanlegt eldsneyti voru samin af forsvarsmönnum metanólframleiðandans Carbon Recycling International á Íslandi og með hagsmuni hans í huga. Jakob F. Ásgeirsson skrifar um stjórnmálaleiðtogann Ólaf Thors.
Birt er greinin „Hrun Evrópu — tölurnar segja allt“ eftir danska sagnfræðiprófessorinn Bent Jensen, Björn Bjarnason skrifar af vettvangi stjórnmálanna um „dóma og lögmenn, Jón Gnarr og Guð, OR og bruðlið og frið og stríð“, Bjarni Jónsson fjallar um Sjálfstæðisflokkinn og átökin um Ísland, Jóhann J. Ólafsson skrifar greinina „Leigukvóti“, Jón Þ. Þór segir frá Winston Churchill, birt er ræða nýja Nóbelsverðlaunahafans í bókmenntum, Patricks Modianos, fjallað er um kveinstafi vegna RÚV og fýluferðir Huangs Nubos til Íslands og Noregs.
Í bókadómum skrifar Björn Bjarnason um Afhjúpun Reynis Traustasonar, Atli Harðarson fjallar um Rannsóknir Heródótusar og Sögu Pelopseyjarstríðsins eftir Þúkýdídes og Sigurður Már Jónsson skrifar um bækurnar Kaupmanninn á horninu og Bernskudaga eftir Óskar Jóhannsson.
Þjóðmál eru 96 bls. Ritstjóri er Jakob F. Ásgeirsson. Útgefandi er Ugla útgáfa ehf. Þjóðmál kosta 1.500 kr. í lausasölu en ársáskrift kostar 5.000 kr. Bæði stök hefti Þjóðmála og áskrift fást í bóksölu Andríkis.