Vefþjóðviljinn 69. tbl. 19. árg.
Hún er nokkuð algeng sú trú að sá rekstur sem verulegu máli skipti, verði að vera í höndum hins opinbera. Einkaaðilar hugsi fyrst og fremst um gróðann og séu einnig óbundnir af alls kyns reglum sem gildi um hið opinbera, og því sé þeim ekki treystandi fyrir því sem raunverulegu máli skipti.
Ef marka má fréttir þá er ólíklegt að nokkurt fyrirtæki á Íslandi hafi brugðist viðskiptavinum sínum eins illa á þessu ári og Strætó hefur gert, eftir að félagið tók að sér rekstur ferðaþjónustu fatlaðra. Vikum saman birtust tíðar fréttir af ótrúlegu klúðri, þar sem ferðir um stutta leið tóku ótrúlegan tíma, bílar komu allt of seint að sækja farþega eða komu alls ekki, að ógleymdum ótrúlegum hlutum eins og þegar mikið fötluð stúlka gleymdist og var skilin ein eftir í vagni. Þessum fréttum hefur fækkað upp á síðkastið en þær koma enn af og til.
Ef Strætó hefði verið í einkaeigu væri Ríkisútvarpið enn að ræða græðgisvæðingu grunnþjónustunnar í látlausum „samfélagsþáttum“ sínum.
Þetta hefur verið rætt áður. En dæmin eru miklu fleiri.
Á þessu ári hafa einnig birst fréttir um að fólk í nokkrum hverfum á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki fengið póstinn sinn, því bréfberar Íslandspósts hafi hreinlega ekki borið hann út.
Flestir muna líklega eftir því þegar því var slegið upp í fréttum að fyrirtækið Gæðakokkar hefði verið uppvíst að því að senda á markaðinn bökur, sem auglýst var að innhéldu nautakjöt, en í ljós hefði komið að innihéldu ekkert kjöt. Eftir fréttaflutninginn tók fyrirtækið á það ráð að breyta um nafn, með tilheyrandi óþægindum.
Síðan kom á daginn að Matvælastofnun, sem hrundið hafði málinu af stað, hafði látið nægja að kaupa bökur úr einni pakkningu og tekið sýni þar. Málið rataði til dómstóla og þar var framleiðandinn sýknaður vegna þess galla á rannsókninni að taka ekki fleiri sýni til að taka af allan vafa um hvort um óhapp hefði verið að ræða.
Ótrúleg klúður hjá Strætó skilja fatlaða viðskiptavini eftir grátandi á biðstöðvum víða í borginni. Nokkrir bréfberar bera ekki út póstinn til viðtakenda.Starfsmenn Matvælastofnunar afla ekki nægilega margra sýna til að eyða megi vafa um ásakanir sem fara mjög illa með fyrirtæki.
Ekkert af þessu er almennur áfellisdómur yfir opinberum rekstri. Slíkir hlutir og verri eiga sér líka stað í einkafyrirtækjum. Og auðvitað eru þessi atriði undantekning. Langflestir farþegar komust áfallalaust milli staða. Langflest bréf voru borin út. En menn ættu að minnast þess, næst þegar fréttir berast af því að eitthvert einkafyrirtækið hafi ekki staðið sig í stykkinu, að opinber rekstur er ekki sú gæðatrygging sem einhverjir halda.