Vefþjóðviljinn 256. tbl. 18. árg.
Það er afar gott að almenn vörugjöld verði felld niður. Þau mismuna vörutegundum og þar með framleiðendum, seljendum og kaupendum. Frægast er dæmið af brauðristinni og samlokugrillinu sem báru mismunandi vörugjöld.
En þegar kerfið og þingið hafa loks viðurkennt þessa mismunun og ákveðið að afnema hana hljóta menn jafnframt að vinda ofan af annarri grófari og flóknari. Þar er átt við tollana. Tollarnir mismuna vörum eftir því hvaðan þær koma.
Hér að neðan má til að mynda sjá hvernig piparkökum er mismunað eftir uppruna. Piparkaka frá Ísrael og Tyrklandi ber engan toll, hvorki hlutafallstoll (%) né magntoll (kr/kg). Komi piparkakan frá Bandaríkjunum ber hún bæði magntoll upp á 38 krónur á hvert kíló og 20% toll. Og komi hún frá löndum innan ESB ber hún magntoll upp á 32 krónur en 31 krónu frá Chile og 38 krónur þegar piparkökur bakast í Makedóníu.
Bara það að hugsa til þess að menn á launum hjá skattgreiðendum hafi sett þessa þvælu um piparkökur á blað og hún svo verið leidd í lög getur gert hvern mann brjálaðan, hvað þá að að menn þurfi að starfa samkvæmt þessu.