Þriðjudagur 10. júní 2014

Vefþjóðviljinn 161. tbl. 18. árg.

Gat nú verið. Helsta umræðuefnið fyrir kosningar var allt á misskilningi byggt. Eins og Brynjar Níelsson rekur í grein á Pressunni er líklegast engin lagaheimild fyrir því að gefa trúfélögum lóðir út og suður. Það er hreinlega verið að afhenda eigur borgarinnar án lagaheimildar, fara illa með verðmæti í eigu hennar, einkavæðing án útboðs. Um leið var tillaga Framsóknarflokksins um að efna til sérstakra kosninga um gjafagerninginn hrein fjarstæða.

Hins vegar er alvarlegi hlutinn í þessu öllu, sem enginn hefur orð á, að óheimilt er að úthluta Pétri og Páli lóðum án nokkurs endurgjalds nema með heimild í lögum. Skiptir þá engu hvort Pétur og Páll eru í ásatrúarsöfnuði, múslimasöfnuði, í Réttrúnaðarkirkjunni eða Krossinum. Ekki er hægt að láta af hendi rakna almannafé til annarra trúfélaga en þjóðkirkjunnar að óbreyttum lögum. Er tillaga oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík um að borgarbúar kjósi um hvar lóðagjöfin undir mosku eða réttrúnaðarkirkju á að vera því alveg jafnótæk.

Hægt er að skilja þá skoðun að ekki eigi að vera þjóðkirkja með þeim réttindum og skyldum sem henni fylgja í stjórnarskrá og lögum. Einhverjum kann að þykja eðlilegt að gera öllum trúfélögum jafnt undir höfði, sama hvað þau boða. Þá verða menn hins vegar að breyta stjórnarskrá og lögum í stað þess að vaða um í lögleysu.

Ef að trúfélög fá gefnar lóðir hjá borginni, hvað með önnur merk félög sem taka sig hátíðlega? Hvar sækir Félag trekkara um ókeypis lóð hjá borginni? Stenst það jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að félag múslíma og rétttrúnaðarmenn fái ókeypis lóð en ekki trekkarar?

Hitt er svo auðvitað eðlilegt að sérstakar heimildir og forgangur þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá og öðrum lögum verði felldar brott.