Vefþjóðviljinn 106. tbl. 18. árg.
Þeir sem eiga í vandræðum með að velja sér flokk til að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum geta notað ýmsar aðferðir til að auðvelda sér valið.
Ein hjálpleg er að telja karla og konur á framboðslista. Ef „kynjahlutföllin eru jöfn“ þá getur það komið að miklu gagni á kjördag. Að öðru jöfnu ættu menn ekki að kjósa slíkan lista. Hafi framboðið sent frá sér fréttatilkynningu og tekið fram að „kynjahlutföllin“ væru jöfn, er mjög sennilega öruggt að afskrifa þann lista.
Auðvitað verður að hafa einhvern fyrirvara á þessu, því tilviljun getur hafa ráðið því að nákvæmlega jafn margir karlar og konur hafi valist á listann, en þetta er að minnsta kosti sterk vísbending til kjósandans.
Það að „kynjahlutföll“ séu jöfn og að framboð stæri sig af því í fréttatilkynningu, þýðir fyrst og fremst að hér býður fram flokkur sem reynir að laga sig að því sem hann heldur að sé „umræðan“. Þeir sem raða á lista og telja konur og karla, munu aldrei hafa kjark til að taka nauðsynlega en óvinsæla ákvörðun. Þeir munu eins og þeir geta forðast allt sem þeir óttast að verði „umdeilt“. Blási á móti munu þeir strax gefa eftir, í von um „sátt“.Þeir munu alltaf tapa fyrir frekjum.
Sama má oft segja um fyrirtæki. Stundum birtast fréttatilkynningar um að nú séu „kynjahlutföll“ jöfn í einhverri deild einhvers staðar. Það getur verið vísbending um lýðskrum.