Fimmtudagur 17. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 107. tbl. 18. árg.

Ségolène Royal vill útrýma Dieselbílunum sem íslenskir vinstri menn hafa reynt að troða upp á Íslendinga undanfarin ár. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur engan vafa leika á um skaðsemi sótsins úr Dieselvélum.
Ségolène Royal vill útrýma Dieselbílunum sem íslenskir vinstri menn hafa reynt að troða upp á Íslendinga undanfarin ár. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur engan vafa leika á um skaðsemi sótsins úr Dieselvélum.

Vefþjóðviljinn hefur á aðra öld varað við því að stjórnmálamenn taki fram fyrir hendurnar á almenningi þegar kemur að samgöngum. Til að mynda hefur hér margsinnis hefur verið lýst efasemdum um að Dieselbílar séu betri fyrir borgarbúa en bensínbílar og verðskuldi foréttindi.

Þetta hefur ekki verið gert að tilefnislausu.

Snillingarnir með „grænu skrefin“ hjá Reykjavíkurborg hafa á undanförnum árum lagt talsvert á sig og aðra borgarbúa til að hygla Dieselbílum. Það eru til að mynda einkum Diesel bílar sem fá „frítt í stæði“ í borginni því þeir eru sagðir svo „visthæfir“. Um leið hafa þessir snillingar lýst miklum áhyggjum af svifryksmengnun í borginni. Allir sæmilega upplýstir menn vita þó að frá Dieselbílum kemur miklu meira og verra sót en frá bensínbílum, ekki síst gömlum Dieselrokkum eins og eru í strætisvögnunum sem borgin kynnir sem umhverfisvæna.

Hið sama má segja um grænu snillingana á löggjafarsamkomunni. Þeir hafa komið í gegn alls kyns lögum sem draga taum Dieselbíla á kostnað bensínbíla. Þannig er Dieselbílum bæði hyglað hvað varðar vörugjöld á bílana sjálfa, bifreiðagjöld og skatta á eldsneyti. Á árinu 2010 var til dæmis hætt að miða bifreiða- og vörugjöld á bíla við vélarstærð og skattarnir tengdir magni koltvísýrings ( CO2 ) í útblæstri bílsins á hvern ekinn kílómetra.

Viska þessi kemur að mestu frá vinstri flokkunum en einnig vinstri mönnum í Sjálfstæðisflokknum.

Jæja nú þegar öll þessi fríðindi fyrir Dieselbílana hafa verið færð í lög og reglur og mótuð í metnaðarfullar „umhverfisstefnur“ kemur vinstrimaðurinn Ségolène Royal umhverfisráðherra Frakklands og segir:

Il faut en terminer avec les voitures diesel.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin færði útblástur frá Dieselvélum nýlega úr flokki efna sem valda líklega krabbameini í flokk þeirra sem valda því örugglega.

Ætli nokkur Dagurinn, Gísli Marteinninn eða Svandísin verði spurð að því hvers vegna þau hafi lagt að fólki að kaupa frekar Dieselbíla en bensínbíla?