Vefþjóðviljinn 231. tbl. 18. árg.
Liðsmenn Pírata hafa á undanförnum árum farið mikinn um það sem þeir kalla rétt manna til „upplýsafrelsis“, en þar eiga þeir við rétt manna til að taka gögn og aðrar upplýsingar ófrjálsri hendi og helst dreifa þeim í kjölfarið á netinu eða til fjölmiðla. Þegar gerð er athugasemd við slíkan þjófnað er spurt með þjósti hvert menn séu á móti frelsi, upplýsingu og netinu.
Meðal tillagna Pírata er að Íslandi verði breytt í „griðland upplýsinga“, það er að segja að hér megi birta öll stolin skjöl, án þess að þjófurinn beri nokkra ábyrgð á gjörðum sínum.
Í stefnuskrá Pírata um gagnsæi segir:
Píratar vilja að almenningur hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hann þarf til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir og veitt stjórnsýslunni það aðhald sem hún þarf.
Öllum.
Þannig mætti til að mynda ætla að Píratar væru ánægðir með að upplýsingar um menn sem óska eftir hæli á Íslandi lægju á hinum gagnsæja glámbekk. Hvernig á almenningur að taka upplýsta afstöðu til hælisleitenda án þess að hafa allar upplýsingar?
Nú hefur kapteinn Pírata boðað vantraust á innanríkisráðherra því einhver í ráðuneytinu hafi stundað „upplýsingafrelsi“ og komið „öllum upplýsingum“ um hælisleitanda til almennings.
Þessi kapteinn Pírata hefur kynnt sig sem einn af forsvarsmönnum Wikileaks sem birtir illa fengnar upplýsingar um fólk. En hins vegar kom babb í bátinn hjá Píratanum þegar erlend yfirvöld óskuðu eftir að fá afhent einhver tölvusamskipti hennar. Hún bar því fyrir sig að hún væri íslenskur alþingismaður.
Lengra nær nú ekki blessað „upplýsingafrelsið“. Á því eru strax gerðar undantekingar þegar hægt er að saka pólitíska andstæðinga um að hafa stundað það og þegar upplýsingar um háttvirta Birgittu Jónsdóttur alþingismann eru annars vegar.