Mánudagur 6. maí 2013

Vefþjóðviljinn 126. tbl. 17. árg.

Samningar háðir vöxtum og verðbólgu eru ekki jafn útreiknanlegir og gangur himintunglanna.
Samningar háðir vöxtum og verðbólgu eru ekki jafn útreiknanlegir og gangur himintunglanna.

Sumir virðast vera þeirrar skoðunar að yfirleitt þegar eitthvað fer öðruvísi en þeir höfðu hugsað sér, hafi „forsendur brostið“ og það hljóti að hafa allskyns áhrif. Það að verðbólga hafi tiltekin ár verið meiri en almennt hafi verið búist við, er í huga margra skýrt dæmi um forsendubrest og hann eigi að leiða til þess að skattgreiðendur eigi að bera umsamdar vísitöluhækkanir lána, en ekki lántakinn. 

En hvernig ætli sé með annað sem fer öðruvísi en menn hugsa sér? Maður sem kaupir hlutabréf í fyrirtæki myndi ekki gera það ef hann vissi að það færi á hausinn innan skamms. Er þá ekki augljós „forsendubrestur“ ef fyrirtækið fer svo á hausinn eftir tvo mánuði? Þarf maðurinn að standa við samninginn, þegar „forsendur“ eru svona augljóslega „brostnar“. Það fer varla milli mála að verðmæti bréfanna hans hefur „stökkbreyst“ við gjaldþrotið? Og ef hann réði engu um gjaldþrotið, er þá eitthvert réttlæti í því að hann sitji einn uppi með tjónið? Og að delinn sem seldi honum hlutabréfin sé bara feitur og ánægður heima sjá sér, sloppinn? Hvar er réttlætið í þessu?

Hvernig er með mann sem tekur yfirdráttarlán í banka til að kaupa sér bíl? Hann skoðar meðalvexti síðustu ára og sér að hann hefur alveg efni á yfirdráttarvöxtunum. En svo hækkar Már bara stýrivextina aftur og aftur, og alltaf hækka yfirdráttarvextirnir fljótlega á eftir. Maðurinn með yfirdráttinn bjóst ekkert við þessu. Hann réði engu um þetta. Hann var ábyrgur og skoðaði vexti síðustu ára. Bíllinn var engin drossía heldur bara hóflegur fjölskyldubíll. Hann hefði aldrei tekið lánið ef yfirdráttarvextirnir hefðu ekki einmitt verið það sem þeir voru þegar hann tók lánið. Þessir yfirdráttarvextir voru forsenda hans. Hún er brostin. 

Skattgreiðendur verða að borga þetta. Það er spurning um réttlæti.