Vefþjóðviljinn 118. tbl. 17. árg.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með fylgistapi Framsóknarflokksins undanfarnar tvær vikur. Eftir að fólki varð betur ljóst hvað flokkurinn er eiginlega að tala um þegar kemur að „almennri skuldaleiðréttingu“ hefur fylgið farið úr 40% í könnunum niður í 24% í kosningunum í gær. Það er vissulega mjög góður sigur fyrir Framsóknarflokkinn en landsmenn hafa hins vegar almennt ekki hlaupið á eftir stórkostlegustu útgjaldaloforðum síðari tíma. „Skuldaleiðréttinga“-flokkarnir Framsóknarflokkur, Dögun, Hægri grænir og Flokkur heimilanna eru með innan við þriðjungs fylgi samanlagt. Þeir hafa 19 þingmenn af 63.
Hefði Framsóknarflokkurinn hamið sig og látið sér nægja að njóta lofsverðrar afstöðu sinnar í Icesave málunum hefði hann ef til vill haldið hinu gríðarmikla fylgi fram að kosningum. Forysta Sjálfstæðisflokksins fékk að sama skapi hirtingu í kosningunum í gær fyrir afglöp sín í síðasta Icesave málinu. Ef frá eru talin úrslitin 2009 eru þetta langverstu úrslitin fyrir hægrivæng íslenskra stjórnmála. Það sem hingað til hafa verið talin næst verstu úrslitin fyrir hægrivænginn var niðurstaðan 1987 þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk tæp 28%. En þá fékk auðvitað klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Borgaraflokkurinn, 7% fylgi sem ekki er hægt að líta framhjá. Eftir rúmlega fjögurra ára vinstristjórn af verri gerðinni fær eini hægriflokkur landsins aðeins rúman fjórðung atkvæða.
Það sjá allir sem horfa á grafið hér að við dóm EFTA dómstólsins í lok janúar ákváðu margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins að yfirgefa hann. Flokkurinn hafði verið með nokkuð stöðugt fylgi við 35% um langt skeið þegar dómurinn féll. Hér er því hiklaust haldið fram að með réttri afstöðu flokksforystunnar í síðasta Icesave-málinu hefði Sjálfstæðisflokkurinn getað fengið 36-38% fylgi í gær. Enn er algerlega óútskýrt hvers vegna forystan veik frá grundvallarstefnu flokksins og einstaklega skýrri ályktun landsfundar um að segja „NEI við löglausum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave málinu.“ Sjálfstæðisflokkurinn missti í gær af tækifæri til að ná fyrri styrk sínum – ekki vegna harðrar baráttu fyrir grunngildum flokksins – heldur vegna stuðnings meirihluta þingflokksins við eitt versta mál vinstristjórnarinnar!
Það er hins vegar rétt að halda því til haga að nokkrir þingmenn flokksins, Birgir Ármannson, Sigurður Kári Kristjánsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Pétur H. Blöndal, greiddu atkvæði gegn Icesave III og Guðlaugur Þór Þórðarson sat hjá. Hinir þingmenn flokksins hljóta hið minnsta að skulda almennum stuðningsmönnum flokksins skýringu á afstöðu sinni, því eins og Vefþjóðviljinn hefur áður bent á voru það einkum almennir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sem felldu Icesave III í þjóðargreiðslunni í apríl 2011. Þeir þurftu að sjá um verkin sem flokksforystan sveikst um.
En aftur að forystu Framsóknarflokksins sem fylltist oflæti í kjölfar Icesave dómsins og taldi sig geta selt kjósendum einhvers konar töframeðal gegn skuldum.
Saman við oflátungsháttinn hafa frambjóðendur flokksins hrært þjóðrembu, hatursfullu tali gegn „erlendum kröfuhöfum“ og óvenjulegri óvirðingu fyrir réttarríkinu. Formaður flokksins og oddviti hans í Reykjavíkurkjördæmi norður töluðu um að nota „kylfur“ og „haglabyssur“ á lánveitendur gömlu bankanna. Þeir lánveitendur, sem enn halda kröfum sínum, hafa tapað nær öllu fé sínu og eru eins og aðrir lokaðir innan gjaldeyrishafta með það litla sem eftir stendur af eigum sínum. Vefþjóðviljinn man bara ekki eftir að íslenskir stjórnmálamenn hafi áður notað svona orðfæri um þær aðgerðir sem ríkisvaldið muni beita gegn einstaklingum og lögaðilum sem eiga lögvarða hagsmuni hér á landi. Eitt er að leita samkomulags við fólk, annað er að gera það með hótunum um að bareflum og skotvopnum verði beitt. Eins og bent hefur verið á geta slíkir „samningar“ vart haldið fyrir dómi.
Í viðtali við Morgunblaðið 13. apríl var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins spurður hvernig flokkurinn ætlaði að ná eignum þessa fólks af því.
Og sé spurt hvort ríkið hafi kraft til að ná þessu fram er svarið já, því eins og nokkrir af þeim erlendu ráðgjöfum sem komu að Icesave-deilunni á sínum tíma sögðu, þá skyldi enginn vanmeta þann styrk sem felst í fullveldisréttinum andspænis einkaaðilum.
Hvaða einkaaðilum stóð íslenska ríkið andspænis í Icesave deilunni? Voru það ekki tvö erlend ríki með aðstoð ESB sem sóttu að Íslendingum í því máli? Þetta er einhver furðulegur misskilningur hjá formanninum. En hitt er þó öllu verra hvernig hann hótar að nota ríkisvaldið almennt og skilyrðislaust gegn einkaaðilum. Þetta eru skuggalegar hótanir frá manni sem kemst mögulega til valda hér á næstu dögum. Einstaklingar og fyrirtæki starfa í trausti þess að leikreglum sé ekki breitt í grundvallaratriðum í miðjum leik eða jafnvel eftir á. Það eru aðalsmerki vestrænna réttarríkja.
Þakka má fyrir að ekki tókst á undanförnum misserum að hrófla við stjórnarskrá lýðveldisins og þeim grundvallarmannréttindum sem hún tryggir; eignarrétti og jafnræði fyrir lögum. Hún er helsta vörnin gegn stjórnmálamönnum af þessu tagi.
Í því samhengi er auðvitað rétt að hafa í huga að Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs boðaði fyrir síðustu kosningar að stjórnarskránni skyldi kastað í ruslið. Um leið og sótt yrði um aðild að ESB. Það er auðvitað ákveðin vonarglæta í því að ekkert reyndist að marka þau stefnumál Sigmundar Davíðs.