Vefþjóðviljinn 129. tbl. 16. árg.
Hvað ætli Vefþjóðviljinn hafi oft fullyrt að bannsinnar verði aldrei ánægðir? Þau tímamót muni aldrei verða að slettirekurnar verði ánægðar?
Hvenær ætli venjulegur vinstrigrænn stjórnmálamaður muni til að mynda hugsa með sér að nú sé loks komið nóg af boðum og bönnum? Eða íhaldsmaður með umvöndunar- og siðapredikunarþörf sem hann telur rétt að leiða í landslög?
Þess vegna er svo mikilvægt að láta ekkert eftir þessu liði. Um leið og það nær einum áfanga snýr það sér einfaldlega að þeim næsta. Margt af því að algerlega útilokað að sjá fyrir. Það getur hver sem er orðið næsta skotmark; maturinn þinn, fötin þín, kynlífið þitt, vímuefnið þitt, dansinn, íþróttirnar, ruslið, ferðamátinn.
Nýjasta dæmið er tilraun vinstri grænna í borgarstjórn Reykjavíkur til að banna ákveðna tegund líkamsræktar í Elliðaárdalnum.
Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi vinstri grænna vill koma í veg fyrir að menn fái að stunda svonefnda Boot Camp líkamsrækt í auðu húsi við Rafstöðvarveg. Ástæðan er sú að æfingarnar minni á hermennsku. Sóley er þó í flokknum sem stóð að árásarstríði gegn Líbýu og notar hvert tækifæri til að hampa morðingjanum Che Guevara. Á skrifstofu flokksins við Suðurgötu hefur hangið uppi mynd af Che. Í fjáröflunarskyni hefur flokkurinn látið framleiða nærboli með mynd af Steingrími J. Sigfússyni í gervi Che. Árni Þór Sigurðsson þingmaður flokksins gengur um með húfu með mynd af böðlinum.
Eigandi líkamsræktarstöðvarinnar bauð Sóleyju Tómasdóttur að mæta á Boot Camp æfingu og kynna sér málið. Sóley svaraði því boði í Vísi í gær:
Ég er búin að prófa Boot Camp, ég gerði það árið 2007. Þannig takk samt, ég er í fínu formi þrátt fyrir að vera ekki hjá þeim.
Já Sóley er búin að vera í Boot Camp. Þegar Sóley Tómasdóttir þarf ekki lengur á hlutunum að halda þurfa aðrir þá ekki heldur.