Þriðjudagur 5. apríl 2011

95. tbl. 15. árg.

Í blöðunum í dag eru tvær auglýsingar í boði Andríkis.

Annars vegar vekur félagið athygli á því með auglýsingu í Fréttablaðinu að andvirði Búðarhálsvirkjunar hverfur á þessu ári úr ríkissjóði vegna vaxtagreiðslna fyrir árin 2009 – 2011, verði Icesave III samþykkt. Í umsögn fjármálaráðuneytisins (bls. 1) til fjárlaganefndar Alþingis 11. janúar 2011 segir: „Gert er ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja TIF til 26,1 mia.kr. á árinu 2011, þar af 9 mia.kr. vegna áranna 2009-2010 umfram þá 20 mia.kr. sem sjóðurinn sjálfur getur staðið undir og 17,1 mia.kr. vegna vaxtagreiðslna á þessu ári.“ Allt í erlendum gjaldeyri, takk fyrir.

Í öllu jarminu um að fjármögnun Landsvirkjunar á þessari virkjun væri háð Icesave málinu var aldrei vakin athygli á því að ríkisfyrirtækið telur heildarkostnað við virkjunina vera svipaðan og þessar vaxtagreiðslur vegna áranna 2009 – 2011. Greiði ríkissjóður ekki vaxtakostnað vegna Icesave III gæti hann boðið Landsvirkjun upp á Búðarhálsvirkjun.

Hins vegar gleður félagið lesendur Morgunblaðsins með fríðum flokki manna sem haft hefur sig nokkuð í frammi vegna Icesave III að undanförnu. Allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa lagt hart að landsmönnum samþykkja Icesave II sem kjósendur afþökkuðu þó með 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári. Það þarf auðvitað nokkra kokhreysti til að ætla að kjósendur hafi áhuga á frekari ráðleggingum þeirra sem sögðu Icesave II vera það eina rétta í lífinu. Það er sjálfsagt að launa þeim hreystina með góðri kveðju.

Í því samhengi er rétt að benda mönnum á ekki síður glæsilegan málflutning í þingsal þegar Icesave II var til umfjöllunar. Þarna eru þeir allir, frasarnir sem nú eru endurnýttir til að réttlæta Icesave III: