T ryggvi Þór Herbertsson alþingismaður fór fram á það á dögunum að laun alþingismanna yrðu hækkuð að nýju, en þau voru lækkuð töluvert í árslok 2008 og svo fryst í þeirri lækkun. Fékk tillagan víða þau viðbrögð sem búast mátti við í íslenskri þjóðmálaumræðu, en að vísu lagði þingmaðurinn sitt af mörkum til þess með því að færa fram þau rök að hann sjálfur og aðrir merkir menn í efri millistétt væru vanir svo veglegum lífsstíl að þeir yrðu að borga með sér í hverjum mánuði ef þeir slysuðust inn á þing vegna sameiginlegra mistaka sinna og kjósenda.
En það eru fleiri sem þurfa launahækkun og ekki síður en þingmenn. Þegar félagarnir í ASÍ og SA hittust síðast og borðuðu vínarbrauð hjá sáttasemjara ríkisins, var ein helsta krafa verkalýðsfélaganna að lægstu laun yrðu hækkuð í 200.000 krónur en vinnuveitendur sáu á því fjölmörg tormerki. Sá sem fær minna en 200.000 krónur í laun, og þarf að framfleyta sér og sínum af því, er ekki ofhaldinn. En fyrirtækin eru það ekki heldur og þar er meðal annars við ríkisstjórnarmeirihlutann að sakast og skattahækkanir hans. Það er mjög æskilegt að kaupmáttur hins almenna manns aukist.
En til þess þarf að auka verðmætasköpun í landinu. Það verður ekki gert með sköttum, höftum, hindrunum, bönnum, málæði eða löngum ræðum um „félagslegt réttlæti“. Og alls ekki gert með því að ráðast að hagkvæmni í undirstöðuatvinnuvegi landsins. Atvinnulífið verður að fá svigrúm til að ná sér á strik. Það þarf að lækka skatta, draga úr opinberri eyðslu en auka frelsi borgaranna á flestum sviðum. Ef menn vilja raunverulega auka verðmæti í þjóðfélaginu þá gera menn þetta. Hinir halda áfram á sömu braut og í höndunum á þeim mun allt staðna, þótt þeir geti sjálfsagt endalaust haldið þrjátíuogfimmmanna flokksráðsfundi þar sem samþykkt verður með átján atkvæðum gegn sautján að lýsa stuðningi við ríkisstjórnina þeirra.