E
nginn verður kenndur þar sem hann ekki kemur, segir máltæki. En fjarveran dugar ekki alltaf til sýknu. Að minnsta kosti má blessuð frjálshyggjan reyna það þessa dagana, að hana stoðar ekki að hafa verið fjarri góðu gamni þar sem ákvarðanir voru teknar í íslenskum þjóðmálum undanfarin ár; henni skal samt kennt um það sem miður á að hafa farið í íslenskum efnahagsmálum síðustu mánuði. Sama má segja um óskilgreinda systur hennar, „nýfrjálshyggjuna“, sem er nú úthúðað jafnt í þingræðum nýbakaðra ráðherra í minnihlutastjórn, æsingagreinum gamalla viðskiptafræðinga í dagblöðum og óðra manna skrifum á bloggsiðum.
Hér á landi ríkti ekki frjálshyggja, og það sem meira var, stjórnvöld sögðust hvorki vinna eftir henni né hafa í hyggju að koma henni á. Hér var hins vegar ekki kommúnískt alræðisríki heldur, fjarri því. Hér hefur undanfarin ár verið byggt á hefðbundnu blönduðu hagkerfi – og væri gaman að vita hvort þeir sem telja að nú þurfi að „byggja nýtt Ísland“ vilji í ljósi þess afnema blandað hagkerfi. Hitt er annað mál að síðustu tuttugu ár tæp voru ýmis opinber fyrirtæki einkavædd og ríkið lækkaði ýmis skatthlutföll á landsmenn og greiddi niður opinberar skuldir. Allt var það í rétta átt og framfaraspor. Hin einkavæddu ríkisfyrirtæki skiluðu gríðarlegu fé til hins opinbera eftir einkavæðingu, bæði með eigin sköttum en ekki síður með því að hafa mikinn fjölda hálaunamanna í vinnu og lána til framkvæmda.
Það hefur engin „frjálshyggja“ komið landinu eða neinum öðrum á kaldan klaka. Það er engin frjálshyggja í því að láta skattgreiðendur ábyrgjast erlend innlán í íslenskum bönkum. Ef hér hefði ríkt frjálshyggja þá hefði engin ríkisstjórn fengið að skuldbinda ríkið til að ábyrgjast stórfelld lán vegna sparireikninga íslensku bankanna erlendis. Íbúðalánasjóður ríkisins hefði ekki stundað æðisgengna keppni við einkabankana með þeim afleiðingum að hér varð til fasteignabóla. Ef hér hefði ríkt frjálshyggja hefðu ríkisútgjöldin ekki verið aukin með ótrúlegum hætti á síðustu árum – og má þar minnast að vinstriflokkanir töldu aldrei nóg að gert í neinum ríkisútgjöldum nema til lögreglunnar. Í þessu landi „nýfrjálshyggjunnar“ hefur opinberum starfsmönnum fjölgað ár frá ári, nýtt Íslandsmet verið sett í opinberum útgjöldum á hverju einasta ári, annar hver maður er í fæðingarorlofi á kostnað ríkisins lungann úr árinu og Íslendingar reka sendiráð í Nýju Delhi og Jóhannesarborg, svo dæmi séu tekin af handahófi.
Og, svo horft sé til fjármálamarkaða í ljósi umræðna undanfarinnar vikna. Á fjármálamarkaði hafa gilt ýtarlegar og umfangsmiklar reglur hér í þessu landi nýfrjálshyggjunnar. Svo mikla áherslu lagði ríkið á eftirlit með fjármálamarkaðnum að árið 1998 bjó það til sérstaka stofnun, Fjármálaeftirlitið, til að fylgjast vandlega með honum. Að auki eru viðskiptaráðuneyti, viðskiptanefnd alþingis, samkeppnisstofnun, seðlabanki, neytendastofa, umboðsmaður neytenda og neytendasamtök á ríkisstyrk til að gæta hagsmuna almennings.
Upptalning á flestum þessum reglum, sem gilda um fjármálamarkað í ríki nýfrjálshyggjunnar, þekur heila dagblaðssíðu. Og það er einmitt það sem hún gerir í dag í Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu og Fréttablaðinu, en öll þessi blöð birta í dag auglýsingu frá Andríki, útgáfufélagi Vefþjóðviljans, þar sem þær eru taldar upp, reglurnar sem gilda í nýfrjálshyggjulandinu, þar sem regluleysið hefur sett allt á hausinn, ef marka má gasprara umræðuþáttanna, ráðherrabekkjanna og bloggsíðnanna.
Eins og oft hefur komið fram í Vefþjóðviljanum er allur kostnaður við starfsemi Andríkis greiddur með frjálsum framlögum velunnara þess. Þeir sem vilja bætast í þann ágæta hóp geta gert það um hlekk hér á vinstri hönd. Það er þekkt að útgjöldin eru vinstra megin.
F ramsóknarflokkurinn, sem þó segist aðeins ætla að verja minnihlutastjórnina vantrausti, hefur enn sem komið er farið í allar sendiferðir fyrir hana sem honum hefur verið skipað. Í gær tók hann þátt í því að setja forseta þingsins af og kjósa nýjan, sem þó var með öllu ónauðsynlegt til að minnihlutastjórnin gæti setið og starfað. Þá hlýddi Framsóknarflokkurinn öllu um kjör nýrra þingnefnda. Virðingarmesta nefnd þingsins er utanríkismálanefnd. Þar hefur nú verið valinn nýr formaður, fyrir tilstyrk kjósenda Framsóknarflokksins, Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstrigrænna og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar. Þessa mynd af hinum nýja formanni utanríkismálanefndar alþingis tók hann sjálfur á Kúbu þegar hann var við leik og störf í ríki þeirra Kastrós og Ches. Því miður sést Kastró ekki á myndinni, en Che er á sínum stað á enni formanns utanríkismálanefndar alþingis.