Föstudagur 3. apríl 2009

93. tbl. 13. árg.

Þ að virðist sem algerir viðvaningar stýri Framsóknarflokknum. Nú láta þeir vinstriflokkana plata sig til að teygja þingið von úr viti, en á meðan þingið situr getur fylgi Framsóknarflokksins ekki annað en minnkað. Vonarstjarna framsóknar, formaðurinn nýi, er utan þings og kemst hvorki í fréttir né huga nokkurs manns svo lengi sem umræður standa á þingi. Hlæjandi dæla vinstriflokkarnir inn gömlum baráttumálum sínum, svo sem um vændi og nektardans, vitandi það að framsókn hefur bitið í sig að fara ekki í kosningabaráttu fyrr en búið er að afgreiða einhverja tillögu um stjórnlagaþing sem enginn maður skilur nema Gísli Tryggvason. Það er ekki að undra að fylgi Framsóknarflokksins sé á tveimur mánuðum farið úr 17% í tæplega 10. Nú eru þrjár vikur og einn dagur í kosningar og enn sitja framsóknarmenn við Austurvöll og tálga af sér fylgið, við hlátur forystumanna vinstriflokkanna en furðu sjálfstæðismanna.

Í dag bætast tvær ólíkar en áhugaverðar bækur í Bóksölu Andríkis. Í báðum koma raunar mannréttindabrot og ofbeldi við sögu, en ólíkar eru þær samt enda er umfjöllunarefni annarrar þess eðlis að engu verður líkt við það. Önnur bókin fjallar um varhugaverða hluti í næsta nágrenni, sem margir hafa ekki opnað augun fyrir, hin fjallar um skelfingu sem ekki má gleymast.

Í bók sinni Nótt fjallar gyðingurinn Elie Wiesel um þá martröð sem hann upplifði þegar hann og fjölskylda hans voru tekin höndum og flutt í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz og Buchenwald. Þar var hann þar til Bandaríkjamenn komu í apríl 1945 en fjölskylda hans var ekki eins heppin, ef tala má um heppni í því sambandi. Mörgum árum síðar, hafði hann að einhverju leyti náð að horfast í augu við reynslu sína og skrifaði í framhaldi þessa sjálfsævisögulegu bók, sem hefur náð metsölu víða um heim.

Vitanlega er langt í að hryllingurinn sem lagður var á gyðinga á fjórða og fimmta áratugnum gleymist, en þess þarf að gæta að komandi kynslóðir viti hvað fram fór. Þeir sem stóðu fyrir ofsóknunum voru ekki einhverjar illar verur af öðrum hnetti, heldur menn af holdi og blóði, menn sem í upphafi voru kannski ekkert verri en hverjir aðrir. En þegar nógu lengi er alið á hatri, þegar ofstækið veður uppi, þá getur aftur farið eins og þá fór. Þegar tekst að koma því inn hjá nógu mörgum að erfiðleikar þeirra séu einhverjum tilteknum öðrum hópi að kenna, þegar tekst að búa til stigvaxandi almenningsálit sem fyrst lætur minniháttar eignaspjöll og ofbeldi gegn þessum afmarkaða hópi viðgangast, þegar stjórnvöld fara næst að hvetja til ofbeldis og eignaupptöku og loks taka fullan þátt í því sjálf, þá er aldrei að vita á hvaða stig illskan getur komist. Meðal annars þess vegna mega menn aldrei gleyma þessari skelfilegustu mynd skipulagðs ofbeldis sem mannkynið hefur náð að beita sjálft sig. Og þær milljónir manna sem þarna voru myrtar, af ekki bara ráðnum hug heldur óhugnanlegri skipulagningu og nákvæmni, eiga það líka skilið að örlaga þeirra sé minnst. Í viðauka fylgir ræða sú er Wiesel flutti er hann tók við friðarverðlaunum Nóbels.

Í bókinni Dýrmætast er frelsið fjallar norsk kona, Hege Storhaug, um innflytjendamál á Norðurlöndum og einkum í Noregi. Fjöldi innflytjenda hefur streymt til Evrópu síðustu áratugi og ásýnd hennar breytist hratt. Margir fagna því eflaust að vestræn gildi láti undan síga en þróunin hefur sínar skuggahliðar sem ekki má horfa fram hjá. Margir innflytjendanna búa við skelfilegar aðstæður, ekki síst vegna ofstækismanna í eigin röðum, en yfirvöld á hverjum stað vilja sýnast umburðarlynd og víðsýn og horfa fram hjá kynjamisrétti, trúarofstæki, heiðursmorðum, limlestingum, nauðungarhjónaböndum og fleiri ófögnuði. Það er til dæmis óhugnanlega algengt að ungt fólk úr vissum menningarheimi fái ekki að velja sér maka sjálft, heldur sé þvingað til að gerast nokkurs konar lifandi vegabréfsáritun með því að giftast ókunnum mönnum úr heimalandinu, og koma þeim þannig til nýja landsins í nafni fjölskyldusameiningar. Dýrmætast er frelsið opnar augu lesandans fyrir skelfilegri kúgun sem fjölmargt fólk býr við, jafnvel í næstu nágrannalöndum. Gallinn við bækur eins og Dýrmætast er frelsið er hins vegar auðvitað sá að menn dragi of almennar ályktanir af þeim, hrapi til dæmis að þeirri niðurstöðu að innflytjendur séu allir slæmir og að loka beri landamærum frekar en orðið er.

Dýrmætast er frelsið og Nótt kosta 1990 krónur hvor í Bóksölu Andríkis. Heimsending innanlands er innifalin í verðinu en 600 króna sendingargjald bætist við erlendar pantanir.

Þess má jafnframt geta að þessar kiljur eru eins og flestar aðrar bækur í Bóksölu Andríkis sendar kaupendum með almennum bréfapósti. Þær berast því inn um lúgu manna en þarf ekki að sækja út á pósthús. Það eru aðeins Moskvulínan, Í hita kalda stríðsins og Hið sanna ástand heimsins sem fara í bögglapóst.