S amtök atvinnulífsins lögðu í haust mikið kapp á að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn yrði fenginn til að leiða villuráfandi Íslendinga út úr ógöngunum. Það var gert. Fyrsta tillaga sjóðsins var að snarhækka vexti en Samtök atvinnulífsins hafa barist gegn háum stýrivöxtum seðlabankans af miklum móð undanfarin misseri. Næsti ávöxtur af samstarfinu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn birtist svo í síðustu viku sem víðtæk gjaldeyrishöft. Samtök atvinnulífsins eiga vart orð til að lýsa skömm sinni á höftunum.
Samtök atvinnulífsins, eða hluti þeirra, hefur að undanförnu gælt við aðild Íslands að öðru yfirþjóðlegu valdi, Evrópusambandinu. Ætli komi ekkert hik á menn við reynsluna af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum?
Landssamband íslenskra útvegsmanna á aðild að Samtökum atvinnulífsins en hefur ekki áhuga á að Ísland gangi í Evrópusambandið. Útvegsmennirnir vilja hins vegar losna við íslensku krónuna. Krónan er líka eins helsta ástæðan fyrir áhuga annarra aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins á inngöngu í Evrópusambandið.
Er það ekki hlutverk forystu Samtaka atvinnulífsins við þessar aðstæður að byrja á því að sinna því sameiginlega áhugamáli félagsmanna sinna að losna við krónuna? Til þess eru ýmis önnur ráð og flest fljótlegri en innganga í Evrópusambandið.
SS tundum er því haldið fram, einkum af fjölmiðlamönnum, að eignarhald skipti í sjálfu sér ekki miklu máli þegar horft er til lýðræðislegs hlutverks fjölmiðla. Fjölmiðlar séu öðruvísi en fyrirtæki almennt að því leyti að eigendur segi starfsmönnum ekki fyrir verkum. Mestu skipti hið „ritstjórnarlega sjálfstæði“. Slík sjónarmið birtustu meðal annars í leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu þann 7. nóvember sl. þegar hann fjallaði um umræður á Alþingi nokkrum dögum áður þar sem margir þingmenn lýstu áhyggjum af tilraunum aðaleiganda Fréttablaðsins til að verða stór hluthafi í útgáfufélagi Morgunblaðsins.
Þessar vangaveltur ritstjórans beina óneitanlega sjónum að því hvernig ritstjórnarlegt sjálfstæði Fréttablaðsins hefur birst á undanförnum vikum í tengslum við hrun bankakerfisins. Ef farið er yfir ritstjórnargreinar Fréttablaðsins frá hruni bankanna kemur í ljós að ósjaldan er vikið hörðum orðum að hinum ýmsu ríkisstofnunum, embættismönnum og ríkisstjórninni og stuðningsflokkum hennar, ekki síst Sjálfstæðisflokknum. Allt eru þetta aðilar sem leiðarahöfundar Fréttablaðsins telja að beri ábyrgð á bankahruninu og atburðum í kjölfar þess. Kallað er eftir því að menn beri ábyrgð og segi af sér og almenningur er hvattur til að næra reiðina og láta hana brjótast fram gegn Sjálfstæðisflokknum í næstu kosningum – nema náttúrulega að hann umpólist í Evrópumálum, en til þess er að sjálfsögðu hvatt í ótal leiðurum á þessu tímabili. Á sunnudaginn bætti Jón Kaldal svo þeirri leiðaraskýringu við þrot bankanna að „aðdragandi einkavæðingar“ þeirra hafi verið vafasamur og þarfnaðist rannsóknar. Fréttablaðið telur þannig að bankarnir hafi verið seldir röngum mönnum og þessir menn hafi verið helstu fórnarlömbin í málinu öllu; stjórnvöld hafi narrað þá í bankarekstur og svo rekið þá fram af bjargbrún.
Allt eru þetta að sjálfsögðu sjónarmið sem Fréttablaðinu er velkomið að hafa – og það er áreiðanlega bara hrein tilviljun að þau virðast fara saman við skoðanir aðaleiganda blaðsins. Það er hins vegar athyglisvert að hvergi í leiðurum blaðsins á þessu sjö vikna tímabili er vikið svo mikið sem orði að mögulegri ábyrgð stjórnenda bankanna eða helstu eigenda þeirra á hruninu, né því að þessir sömu hluthafar voru á sama tíma stórir skuldarar í bönkunum. Að mati leiðarahöfunda Fréttablaðsins er sem sagt ekkert sem bendir til að þeir sem stjórnuðu bönkunum beri nokkra ábyrgð á því hvernig fór fyrir þeim, engar ákvarðanir sem þeir tóku skipta máli og ekkert í viðskiptaháttum þeirra orkar tvímælis. Miðað við leiðarana hafa bankastjórnendur og helstu forkólfar atvinnulífsins á undanförnum árum einungis verið viljalaus handbendi illgjarnra og fávísra stjórnvalda, áhrifalausir og ábyrgðarlausir. Það er sennilega bara tilviljun að þetta viðhorf í leiðaraskrifunum á sér mikinn samhljóm í orðum og yfirlýsingum aðaleiganda blaðsins, sem – fyrir tilviljun auðvitað – var líka einn af aðaleigendum bankanna og ýmissa þeirra fyrirtækja, sem virðast hafa notið hvað mestrar lánafyrirgreiðslu bankakerfisins.