S íðastliðinn laugardag birti Morgunblaðið stutt viðtal sitt við eigin þingfréttaritara, Höllu Gunnarsdóttur. Það var löngu tímabært.
Halla er nýkomin úr rannsóknarferð til Írans og var ferðin vegna meistaraprófsritgerðar hennar í „alþjóðasamskiptum“, og fékk ritgerðin „verðlaun frá Félagsstofnun stúdenta fyrir framúrskarandi gæði“. Eru niðurstöður Höllu mjög fróðlegar fyrir fávísa Vesturlandabúa sem hafa eins og oft áður gert sér ranga mynd af landi og þjóð, en hún komst að þeirri niðurstöðu í rannsóknum sínum að „konur alls staðar í heiminum [séu] kúgaðar“, og þarf víst fáum að koma á óvart. „Það er stigs munur en ekki eðlismunur á því hvernig konur í Íran hafa það og hvernig konur á Íslandi hafa það“, segir Halla Gunnarsdóttir.
Það þarf auðvitað ekki að koma á óvart að enginn eðlismunur sé á kúgun kvenna í Íran og á Íslandi, aðeins stigsmunur. Og líklega varla svo mikill munur ef grannt er skoðað. Í öðru landinu geta konur búist við því að vera myrtar af föður eða bróður ef þær taka saman við rangan mann, og án þess að morðinginn verði sóttur til saka, en í hinu landinu komst nýlega upp að karlalandsliðið í knattspyrnu fékk fimmþúsund krónum hærri dagpeninga en kvennalandsliðið á ferðalagi erlendis. Það sér auðvitað hver maður að kúgun kvenna – sem er lögmál í öllum löndum heims, þar til Hillary Clinton verður forseti Bandaríkjanna með góðu eða illu – er í gerðinni allsstaðar hin sama, og aðeins stigsmunur á því hvernig hún brýst út hverju sinni.
Meðal annarra niðurstaðna í verðlaunaritgerðinni er að það sé „mikil einföldun“ að konur í Íran hafi það svo mikli verra eftir byltingu íslamista árið 1979. „Fyrir byltinguna sagði ríkið að konur mættu ekki vera með slæðu, eftir byltingu segir ríkið að konur eigi að vera með slæðu. Þetta er sama kúgunin.“
Þá kemur fram að eitt rannsóknarviðtalið við íranska konu fór þannig fram að eiginmaðurinn svaraði spurningum meðan konan bar fram te. Um það segir Halla: „Þetta hljómar eins og hið versta kúgunarsamband, en það var það ekki endilega. Þarna var um að ræða konu sem hafði gifst 15 ára og þau hjónin voru vön að hátta sínum samskiptum svona.“
O g Morgunblaðið gerði það ekki endasleppt við konur í múslímalöndum, því sama dag birti hin glaðlega og frjálslynda Lesbók þess, opnugrein þar sem gert var lítið úr baráttukonunni Ayan Hirsi Ali, og hún sökuð um varhugaverðan málflutning og einföldun á veruleikanum. Höfundur þeirrar greinar var að vísu ekki að skila verðlaunaritgerð í alþjóðasamskiptum, en „er með M.A.-gráðu í kynjafræði frá Háskólanum í Utrecht“, og er það engu síðra.
H vað borgar Pepsi cola co. Ríkissjónvarpinu fyrir að sýna þessa coca cola-auglýsingu allt í kring um leiki frá Evrópukeppninni í knattspyrnu?