Þessar tölur bera það náttúrlega með sér að Reykvíkingar vilja ekki þennan meirihluta frekar en þann sem er að fara frá. Þær bera líka með sér þau skilaboð til Sjálfstæðisflokksins að hann er að hanga á völdunum langt umfram það umboð sem hann hefur. Ég er mjög ánægð með fylgið sem mælist hjá okkur. Við munum veita umboðslitla meirihlutanum öflugt viðnám. |
– Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri-grænna í Reykjavík tjáir sig um skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokkanna í borginni. |
Þ egar forystumenn stjórnmálaflokkanna hafa verið inntir viðbragða við niðurstöðum hinna og þessara skoðanakannana á fylgi flokkanna í gegnum tíðina hefur viðkvæði Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, jafnan verið á sömu lund. Skoðanakannanir gefa ákveðnar vísbendingar um stöðu mála á þeim tímapunkti sem þær eru gerðar en ber ekki að taka of alvarlega enda eru skoðanakannanir ekki kosningar. Þessi afstaða Steingríms hefur þótt yfirveguð og skynsamleg, enda segir þetta sig í raun sjálft.
Umboð sitt fá stjórnmálaflokkar frá kjósendum í kosningum til sveitarstjórna eða Alþingis en ekki í skoðanakönnunum. Umboð flokkanna gildir á milli kosninga algerlega óháð niðurstöðum þeirra skoðanakannana sem kunna að vera gerðar í millitíðinni. Nú bregður hins vegar svo við að Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri-grænna í Reykjavík, lýsir þeirri skoðun sinni í samtali við Fréttablaðið í gær að stjórnmálaflokkar fái í raun umboð sitt í gegnum skoðanakannanir, nokkuð sem er ekki aðeins á skjön við það sem formaður hennar hefur ítrekað sagt heldur einnig ágætis vísbending um að Svandís eigi kannski meiri samleið með Samfylkingunni en eigin flokki.